Douglas Luiz fer til Juve - Man Utd í viðræðum um Leny Yoro - Lazio býður í Greenwood - Wan-Bissaka til Tyrklands - West Ham vill Calvert-Lewin -...
   mán 03. júní 2024 12:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Það er held ég ekki hægt að finna tvo ólíkari þjálfara"
Freyr Alexandersson og Sævar Atli Magnússon.
Freyr Alexandersson og Sævar Atli Magnússon.
Mynd: Lyngby
Magne Hoseth.
Magne Hoseth.
Mynd: Getty Images
Sævar í leik með Lyngby.
Sævar í leik með Lyngby.
Mynd: Getty Images
Lyngby náði að halda sér uppi í dönsku úrvalsdeildinni á tímabilinu sem var að klárast. Félagið fór í gegnum þrjá þjálfara á tímabilinu en David Nielsen bjargaði liðinu á endanum.

Freyr Alexandersson byrjaði tímabilið sem þjálfari Lyngby en í kringum áramótin fór hann til Belgíu og tók við Kortrijk. Magne Hoseth, sem hafði þjálfað Færeyjameistara KÍ Klaksvíkur, tók þá við Lyngby en hann entist bara í 50 daga í starfi og stýrði liðinu í tveimur keppnisleikjum.

Í yfirlýsingu frá Lyngby var talað um að Hoseth hefði ekki náð nægilega vel til leikmannahópsins né starfsfólksins. Hann er rólegri týpa en Freyr.

„Það er held ég ekki hægt að finna tvo ólíkari þjálfara en Frey Alexandersson og Magne Hoseth. Ég held að það hafi verið sjokk fyrir Lyngby," sagði Sævar Atli Magnússon í útvarpsþættinum Fótbolti.net síðasta laugardag en hann talaði aðeins um tíma Hoseth hjá félaginu í þættinum.

„Hann kemur þarna inn, byrjar rólega og segist ekki ætla að breyta miklu. Hann breytir strax í fjögurra manna vörn þegar við erum búnir að spila fimm manna vörn nánast allan tímann hjá Freysa. Hann nær ekki nógu vel til leikmannana og ekki heldur vel til leikmannana sem eru leiðtogarnir, eldri gæjarnir. Þegar við förum í æfingaferð er maður byrjaður að heyra að þeir séu að pæla í því að reka hann."

Hoseth sagði að sín stærstu mistök hefðu verið að taka ekki sitt eigið þjálfarateymi með.

„Hann var víst heldur ekki að ná til aðstoðarmanna sinna. Hann fékk ekki að taka teymið sitt með sér. Það voru til dæmis æfingar sem hann stillti upp - hann var ekki sérstakur í ensku - og maður skildi ekki alveg hvað var í gangi. Þá sneri maður sér að aðstoðarþjálfaranum og ég spurði hvernig æfingin virkaði. 'Sævar, við vitum það ekki'. Þá var maður byrjaður að fatta að þetta var ekki eins og hjá Freysa þar sem allir voru með sín hlutverk á hreinu."

„Hann var rekinn eftir tvo leiki án þess að fá heimaleik og það er helvíti hart. Danskir fjölmiðlar gengu hart á Lyngby og þeir fóru kannski aðeins of hart í að drepa karakterinn hans svolítið. Menn eru mismunandi. Eftir á að hyggja var þetta samt góð ákvörðun."

Hægt er að hlusta á útvarpsþáttinn í heild sinni hér fyrir neðan en þar talar Sævar meira um Lyngby og íslenska landsliðið.
Útvarpsþátturinn - Sérfræðingurinn Sævar Atli og fjármálaskýrsla
Athugasemdir
banner