Fylkismenn sóttu stig í Kópavoginn í kvöld þegar þeir gerðu 1-1 jafntefli við Breiðablik. Fylkir er í harðri fallbaráttu en Hermann Hreiðarsson, þjálfari liðsins, hafði þetta að segja eftir leik:
Lestu um leikinn: Breiðablik 1 - 1 Fylkir
„Ég var ánægður með leikinn í heildina og í restina fengum við tvö fín færi til að taka sigurinn. Maður hefði haldið að maður ætti það inni," sagði Hermann léttur.
„Breiðablik er frábært fótboltalið sem getur refsað liðum. Við vorum fókuseraðir og agaðir í dag. Liðið stóð sig frábærlega."
Varnarmaðurinn Sonni Ragnar Nattestad spilaði sinn fyrsta leik fyrir Fylki en hann kom á láni frá FH í glugganum. Hermann hrósaði honum eftir leik og sagði að hæðin á honum hefði komið sér vel í háum sendingum Blikaliðsins.
Zoran Ljubicic er kominn í þjálfarateymið og aðstoðar Hermann og Garðar Jóhannsson.
„Hann er reynslubolti og kemur með helling í þetta. Hann kann fótbolta og hjálpar til með að koma með skemmtilegar æfingar og ferska vinda. Hann verður mikilvægur fyrir okkur. Það er ekki spurning."
Fylkir er enn í erfiðri stöðu,
„Þetta er brekka, við vitum það. Við erum ekki að byrja í þessu. En það er fínn taktur og stemning í liðinu. Það lögðust allir á eitt um verslunarmannahelgina og æfðu aukalega í stað þess að gera eitthvað skemmtilegt. Það skilar sér inn á völlinn, það er öruggt. Hvort það skili sér í nægilega mörgum stigum verður að koma í ljós," segir Hermann en viðtalið má sjá í heild í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir