Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   lau 03. september 2022 23:48
Ívan Guðjón Baldursson
Marcelo kominn til Olympiakos (Staðfest)
Pep Biel og Bowler kynntir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Olympiakos, gríska stórveldið sem Ögmundur Kristinsson er samningsbundinn, er heldur betur búið að styrkja leikmannahópinn sinn fyrir tímabilið í þessari skemmtilegu Íslendingadeild.


Brasilíski bakvörðurinn Marcelo er búinn að skrifa undir eins árs samning við félagið með möguleika á eins árs framlengingu ef samstarfið gengur að óskum.

Marcelo er 34 ára gamall og heimsþekktur sem einn af betri vinstri bakvörðum sinnar kynslóðar. Hann vann urmul titla á rúmum 15 árum hjá Real Madrid og spilaði yfir 500 keppnisleiki fyrir félagið. Marcelo lék auk þess 58 landsleiki fyrir Brasilíu en lagði landsliðsskóna á hilluna fyrir fjórum árum.

Marcelo er mögulega stærsta nafn sem hefur spilað fyrir Olympiakos í sögu félagsins. Félagið er að styrkja sig mikið fyrir komandi leiktíð þar sem Evangelos Marinakis eigandi vill vinna Grikklandsmeistaratitilinn.

Marinakis á bæði Olympiakos og Nottingham Forest og nokkuð augljóst að uppgangur Forest er að hafa jákvæð áhrif á leikmannamálin hjá Olympiakos, sem er þó með leikmenn á borð við Mathieu Valbuena, Kostas Manolas og Sokratis Papastathopoulos innan sinna raða fyrir.

Auk Marcelo var Olympiakos einnig að kynna Josh Bowler á láni frá Forest og Pep Biel á fimm ára samningi. Biel kemur úr röðum FC Köbenhavn.

Í grísku deildinni er Hörður Björgvin Magnússon leikmaður toppliðs Panathinaikos, Sverrir Ingi Ingason er hjá PAOK, Guðmundur Þórarinsson hjá OFI Crete og Viðar Örn Kjartansson er hjá Atromitos.


Athugasemdir
banner
banner
banner