Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 04. janúar 2023 12:25
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Kjartan Henry: Þá fær bara einhver annar að njóta þeirra krafta
Kjartan Henry Finnbogason.
Kjartan Henry Finnbogason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hvað gerir Kjartan Henry næst?
Hvað gerir Kjartan Henry næst?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með KR.
Í leik með KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það hafa verið einhver samtöl en ég tók þá ákvörðun eftir að þetta var allt búið hjá KR að gefa mér smá tíma, leyfa rykinu að setjast og fara í frí með fjölskyldunni," segir Kjartan Henry Finnbogason í samtali við Fótbolta.net í dag.

Kjartan Henry, sem er 36 ára gamall, kom heim í KR sumarið 2021 eftir að hafa leikið sem atvinnumaður í Skotlandi, Svíþjóð, Noregi, Danmörku og Ungverjalandi um margra ára skeið.

Hann er núna félagslaus eftir að hafa sagt skilið við uppeldisfélag sitt.

„Ég hef ekki verið að taka neinar drastískar ákvarðanir hingað til og það var meðvitað. Ég sagði það við alla sem ég talaði við. Standið er mjög gott, ég er í ræktinni á hverjum degi og er í mjög góðu standi," segir Kjartan en hann hefur ekki verið að æfa með neinu liði upp á síðkastið.

„Ég hef farið í kempufótbolta en ég hef ekki verið að æfa með neinu liði. Ég hugsa að ég muni ekki gera það, ég er allavega ekki fara á reynslu neins staðar. Ég er búinn með þann part."

Hann ætlar sér að spila á Íslandsmótinu í sumar, það er alveg ljóst.

„Ég er mjög mótíveraður og ætla mér svo sannarlega að hætta á mínum forsendum. Ég hef mikið fram að færa. Ég byrjaði sjö leiki í fyrra og skoraði fjögur mörk. Það má ekki tala endalaust eins og maður sé hundgamall, ég er bara 36 ára. Ég á allavega eitt - ef ekki tvö - góð ár eftir. Ég ætla að spila í sumar, það er á hreinu."

Er enn að reyna að átta mig á þessu
Kjartan var í stóru hlutverki hjá KR í byrjun tímabils í fyrra en um mitt sumar var hann skyndilega settur út í kuldann og spilaði afskaplega lítið seinni hluta mótsins. Í samningi Kjartans var klásúla um að ef hann spilaði minna en 50 prósent af mínútum KR á tímabilinu þá væri hægt að rifta samningnum. Ljóst varð að KR ætlaði að nýta sér þetta ákvæði.

„Þetta voru ótrúleg vonbrigði. Þó það séu komnar nokkrar vikur og mánuðir þá er ég enn að reyna að átta mig á þessu. Svona er bara lífið og fótboltinn, maður stjórnar þessu ekki sjálfur. Þú getur ekki alltaf fengið prinsessuendi. Þá tekur eitthvað annað við og ég er ótrúlega spenntur að sjá hvað gerist, hvað sem það verður. Ég er allavega mjög mótíveraður og í hörkustandi. Ég hlakka til að skora mörk í sumar."

„Ég tók nóvember og desember í að hugsa málin, hugsa um eitthvað annað en þetta fáránlega galna sumar. Eftir að ég kom heim þá fór maður strax að hugsa, kitla og klæja í að spila fótbolta og skora mörk. Það er það eina sem ég þekki. Ég ætla allavega að gera það í eitt, ef ekki tvö tímabil í viðbót."

Er erfitt að halda í hvatninguna eftir svona tímabil eins og í fyrra?

„Það er frábær spurning. Ég myndi segja að það sé alveg öfugt. Ég hef aldrei verið mótíveraði en akkúrat núna. Ég ætla svo sannarlega ekki að láta einhverja aðra ákveða hvenær ég hætti að spila fótbolta. Ég var atvinnumaður í 17 ár, hef spilað landsleiki og hef helling fram að færa innan sem utan vallar, og klárlega innan vallar. Það er kannski eitthvað sem ég fékk ekki að gera hjá mínu uppeldisfélagi en þá fær bara einhver annar að njóta þeirra krafta," segir Kjartan Henry en það verður áhugavert að sjá hvar hann spilar á næstu leiktíð.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner