„Þetta er bara tuska í andlitið, högg í punginn, ég meina hvað er ekki hægt að segja um þetta. Þetta er viðbjóður. Við ætluðum að taka þrjá punkta og vorum helvíti nálægt því. Það var kæruleysi í restina sem kostaði okkur tvo punkta,“ sagði varnarmaðurinn Björn Berg Bryde að loknu 2-2 jafntefli HK og Breiðabliks.
Lestu um leikinn: HK 2 - 2 Breiðablik
Björn átti góðan leik í vörn HK og var ógnandi fram á við að auki. Hann skoraði síðara mark síns liðs en eftir um korters leik var hann nánast búinn að skora. Snögg viðbrögð fyrirliða Breiðabliks, Gunnleifs Gunnleifssonar, björguðu þá marki.
„Við erum strekir í föstum leikatriðinum og markmiðið er að öll liðin séu skíthrædd þegar við stóru strákarnir mætum í boxið. Gamli karlinn varði þarna fáránlega frá mér í fyrra skiptið en réð ekki við síðari boltann,“ segir Björn.
Það vakti athygli að varnarmaðurinn skipti um treyju á milli leikja. Í fyrstu leikjum ársins var hann í treyju númer fimm en í dag var hann mættur í treyju 24 sem hann kann betur við.
„24 er mitt númer. Það var smá bras á Macron fyrir síðasta leik og nýju treyjurnar ekki komnar þannig við tókum gamla settið. Ég var ekki að fara að taka 24 í stærð small þannig ég lét fimmuna duga,“ segir Björn.
Athugasemdir