
Byrjunarlið Breiðabliks gegn Þór/KA í fyrstu umferð Bestu deildar kvenna vakti athygli fyrir þær sakir að einungis einn uppalinn leikmaður var í liði Breiðabliks. Málið var rætt í Heimavellinum eftir umferðina.
Lestu um leikinn: Breiðablik 4 - 1 Þór/KA
Smá Spánverji í henni
„Írena [Héðinsdóttir Gonzalez] kemur inn á, ég var mjög ánægð með það. Hún er uppalin," sagði Steinunn Sigurjónsdóttir í þættinum.
„Af hverju byrjar hún ekki leikinn, búin að spila frábærlega á undirbúningstímabilinu?" velti Mist Rúnarsdóttir fyrir sér.
„Það er góð spurning, ég get ekki svarað því. Hún er búin að byrja nánast hvern einasta leik á undirbúningstímabilinu og standa sig mjög vel. Það er bara samkeppni í Breiðabliki en hún er þvílíkur fótboltahaus og leikmaður til að fylgjast með í framtíðinni. Hún er alltaf að hreyfa sig, er með aðeins aðra nálgun en maður sér hjá týpískum íslenskum leikmanni. Það er smá Spánverji í henni enda er hún Írena Gonzalez," sagði Steinunn.
Rætt var um að það væru fleiri ungar og efnilegar sem ekki voru í byrjunarliðinu gegn Þór/KA og einhverjar af þeim ekki í hóp vegna meiðsla, veikinda eða einfaldlega voru ekki valdar í hópinn. Nefndar voru Vigdís Lilja Kristjánsdóttir, Kristjana Sigurz og Margrét Brynja Kristinsdóttir.
„Miðað við að við séum að sjá þessa leikmenn utan hóps, verða þær þá ekki að fara á lán? Þetta eru stelpur sem þurfa að vera spila," velti Mist fyrir sér.
„Ég veit ekki hvort þær séu fyrir utan hóp eða hvort þetta séu meiðsli eða veikindi. Áslaug Munda og Hildur Þóra eru að koma frá Harvard og einhver orðrómur er um að stelpur í atvinnumennskunni séu mögulega að koma heim. Þá hendast einhverjar fleiri út," sagði Steinunn sem vildi ekki gefa neitt frekar upp varðandi mögulega heimkomur úr atvinnumennsku.
Of margar eftir að hafa verið of fáar?
Breiðablik lenti í smá manneklu í fyrra þegar liðið fór í Meistaradeildina síðasta haust og leikmenn sem liðið hafði lánað í burtu gátu ekki spilað í riðlakeppni Meistaradeildarinnar með Breiðabliki. „Ég held að það sé aðeins verið að 'overreacta' eftir síðasta haust og það séu komnir aðeins of margir leikmenn," sagði Steinunn og hélt áfram.
„Það er lúxusvandamál að vera með svona marga góða leikmenn en ég verð líka að segja það, verandi með svona góða leikmenn að einungis ein í byrjunarliðinu er uppalin í Breiðabliki - mér fannst það svolítið sláandi. Það var Ásta Eir Árnadóttir."
Titlar eða fjöldi uppaldra leikmanna?
„Hefur það einhvern tímann gerst?" velti Mist fyrir sér.
„Þetta hafa alltaf verið allavega 4-5 uppaldar í byrjunarliðinu. Svo horfði ég á Þór/KA og þær voru með einhverjar sjö uppaldar í byrjunarliðinu og einungis einn erlendan leikmann. Á sama tíma hefur Breiðablik held ég aldrei verið með fleiri erlenda leikmenn," sagði Steinunn.
„Hvernig líður Blikahjartanu með þetta? Er í lagi að það sé bara einn uppalinn Bliki í byrjunarliðinu í leik í Bestu deildinni?" spurði Mist.
„Mér finnst það ekki í lagi, það eru þónokkur pláss sem hægt væri að fylla með uppöldum leikmönnum frekar en að vera sækja leikmenn í önnur íslensk lið - gefa þessum ungu leikmönnum sénsinn. Það fór fullt af stelpum út, af hverju ekki að leyfa hinum sem voru hjá félaginu að spila? Af hverju að sækja leikmenn erlendis frá og úr öðrum félögum á Íslandi? Þessir erlendu leikmenn eru samt flestar mjög góðar. Ég veit ekki með þá áströlsku [Melina Ayers], hún heillaði mig ekki og ég ætla að vona að ef hún stendur sig ekki að ein uppalin hjá félaginu fái sætið hennar," sagði Steinunn.
„Svo er spurning hvað Íslandsmeistaratitilinn telur og hvað telur það að skila góðum uppöldum leikmönnum. Það hefur frekar verið talað um leikmenn sem félagið skilar af sér í efstu deild, í atvinnumennsku og í háskóla frekar en titlana sem hafa unnist. Mér finnst svolítið sárt að sjá einungis eitt Breiðablikshjarta inn á vellinum í upphafi leiks," bætti Steinunn við að lokum.
Athugasemdir