Janúartilboð frá Liverpool í Kerkez og Zubimendi - Forest vill Ferguson - Man Utd hefur áhuga á Raum og Yildiz
   mið 04. desember 2024 21:38
Brynjar Ingi Erluson
England: Mistök Kelleher kostuðu Liverpool sigurinn - Langþráður sigur Man City
Kevin De Bruyne er mættur aftur!
Kevin De Bruyne er mættur aftur!
Mynd: Getty Images
Caoimhin Kelleher gerði slæm mistök í þriðja marki Newcastle
Caoimhin Kelleher gerði slæm mistök í þriðja marki Newcastle
Mynd: Getty Images
Mohamed Salah skoraði tvö og lagði upp eitt
Mohamed Salah skoraði tvö og lagði upp eitt
Mynd: Getty Images
Christopher Nkunku var frábær með Chelsea
Christopher Nkunku var frábær með Chelsea
Mynd: Getty Images
Craig Dawson stýrir boltanum í eigið net gegn Everton
Craig Dawson stýrir boltanum í eigið net gegn Everton
Mynd: Getty Images
Englandsmeistarar Manchester City eru komnir aftur á sigurbraut eftir skelfilegt gengi undanfarið en liðið vann þægilegan 3-0 sigur á Nottingham Forest á Ethiad-leikvanginum þar sem Kevin De Bruyne var í essinu sínu. Topplið Liverpool gerði 3-3 jafntefli við Newcastle United á St. James' Park.

Man City hafði tapað fjórum leikjum í röð í deildinni, sem var versta taphrina á þjálfaraferli Pep Guardiola.

Kevin de Bruyne kom inn í byrjunarlið liðsins í fyrsta sinn síðan í september og minnti hann alla á hversu mikilvægur hann getur verið fyrir liðið.

Hann lagði upp fyrsta markið fyrir Bernardo Silva á 8. mínútu með skalla sem Bernardo náði að skófla í netið og síðan bætti De Bruyne við öðru markinu með skoti úr miðjum teignum eftir sendingu frá Jeremy Doku.

Doku gerði þriðja markið þegar um það bil hálftími var eftir. Erling Braut Haaland sendi boltann á vinstri vænginn á Doku sem keyrði inn í teiginn og smellti honum með hægri í fjærhornið.

Langþráður sigur hjá Man City og heldur Guardiola nú í vonina um að slæma kaflanum sé lokið en liðið er í 4. sæti með 26 stig á meðan Nottingham Forest er í 7. sæti með 22 stig.

Frábær frammistaða Salah dugði ekki til

Newcastle United og Liverpool gerðu 3-3 jafntefli á St. James' Park í kvöld.

Alexander Isak skoraði stórbrotið mark á 35. mínútu leiksins eftir sendingu Bruno Guimaraes. Í stað þess að keyra á Virgil van Dijk ákvað Isak að setja boltann á hægri fótinn og þruma honum efst upp í hægra hornið. Ómögulegt fyrir Caoimhin Kelleher að verja hann þar.

Liverpool svaraði snemma í síðari hálfleiknum. Mohamed Salah lagði boltann út í teiginn á Curtis Jones sem klíndi honum í samskeytin hægra megin og þá gat Cody Gakpo komið gestunum yfir er hann fékk skalla fyrir opnu marki en setti boltann framhjá.

Newcastle refsaði fyrir það með marki frá Anthony Gordon á 62. mínútu. Isak setti boltann inn fyrir á Gordon, sem lék á Joe Gomez áður en hann lagði boltann í netið.

Salah tók leikinn í sínar hendur eftir það. Hann jafnaði metin á 68. mínútu með skoti af stuttu færi eftir sendingu frá Trent Alexander-Arnold og gerði síðan annað mark sitt á 83. mínútu, aftur eftir sendingu frá enska landsliðsmanninum.

Salah er nú kominn með 13 mörk og 8 stoðsendingar í deildinni á þessu tímabili. Egyptinn er í formi lífs síns og er heldur betur að senda eigendum félagsins skilaboð, sem hafa ekki enn náð samkomulagi við leikmanninn um nýjan samning.

Þó Salah hafi gert sitt var ekki alveg hægt að segja það sama um nokkra liðsfélaga hans. Newcastle fékk aukaspyrnu undir lok venjulegs leiktíma. Boltinn kom hátt inn í teig og ákvað írski markvörðurinn Caoimhin Kelleher að sleppa því að handsama boltann þar sem hann hélt að hann væri á leið aftur fyrir endamörk, en svo var aldeilis ekki. Fabian Schär lúrði á fjær og náði að koma boltanum í markið. Skelfileg mistök hjá Íranum sem hefur annars verið frábær í fjarveru Alisson Becker.

Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur 3-3. Liverpool er áfram á toppnum með 35 stig en Newcastle í 11. sæti með 20 stig.

Stórsigrar hjá Chelsea og Everton

Everton pakkaði Wolves saman, 4-0, á Goodison Park. Craig Dawson, leikmaður Wolves, skoraði tvö sjálfsmörk á rúmum tuttugu mínútum.

Ashley Young og Orel Mangala komu Everton í 2-0 forystu í fyrri hálfleiknum en í þeim síðari skoraði Dawson tvö sjálfsmörk, það fyrra með skalla í eigið net eftir hornspyrnu og seinna eftir baráttu við Dominic Calvert-Lewin.

Frábær sigur hjá Everton sem er í 15. sæti með 14 stig en Wolves í næst neðsta sæti með 9 stig.

Chelsea fór illa með Southampton á St. Mary's leikvanginum en lokatölur þar urðu 5-1 þeim bláu í vil.

Axel Disasi stangaði Chelsea í forystu á 7. mínútu eftir hornspyrnu Enzo Fernandez en Joe Aribo jafnaði metin eftir magnaðan undirbúning Kyle Walker-Peters, sem tók hinn fræga Dimitar Berbatov-snúning á Enzo, áður en hann lagði boltann á Aribo.

Það kom enginn titringur í Chelsea-menn. Þeir héldu áfram að herja að marki Southampton og uppskáru tvö mörk fyrir lok fyrri hálfleiks.

Christopher Nkunku skoraði eftir undirbúning Noni Madueke áður en Englendingurinn kom sjálfum sér á blað eftir sendingu Joao Felix á 34. mínútu. Það bætti gráu ofan á svart þegar Jack Stephens, leikmaður Southampton, fékk að líta beint rautt fyrir að rífa í hárið á Marc Cucurella.

Cole Palmer og Jadon Sancho gerðu út um leikinn með tveimur mörkum á síðasta stundarfjórðungi leiksins. Lokatölur 5-1 og Chelsea í öðru sæti með 28 stig, sjö stigum á eftir toppliði Liverpool en Southampton áfram á botninum með 5 stig.

Everton 4 - 0 Wolves
1-0 Ashley Young ('10 )
2-0 Orel Mangala ('33 )
3-0 Craig Dawson ('49 , sjálfsmark)
4-0 Craig Dawson ('72 , sjálfsmark)

Manchester City 3 - 0 Nott. Forest
1-0 Bernardo Silva ('8 )
2-0 Kevin De Bruyne ('31 )
3-0 Jeremy Doku ('57 )

Newcastle 3 - 3 Liverpool
1-0 Alexander Isak ('35 )
1-1 Curtis Jones ('50 )
2-1 Anthony Gordon ('62 )
2-2 Mohamed Salah ('68 )
2-3 Mohamed Salah ('83 )
3-3 Fabian Schar ('90 )

Southampton 1 - 5 Chelsea
0-1 Axel Disasi ('7 )
1-1 Joe Aribo ('11 )
1-2 Christopher Nkunku ('17 )
1-3 Noni Madueke ('34 )
1-4 Cole Palmer ('77 )
1-5 Jadon Sancho ('87 )
Rautt spjald: Jack Stephens, Southampton ('39)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner