Man Utd ætlar að reka Ten Hag - Hver tekur við? - Tuchel hefur áhuga á starfinu
   þri 05. janúar 2021 21:20
Ívan Guðjón Baldursson
Cassano: Dybala pissar á sig undir pressu
Mynd: Getty Images
Paulo Dybala hefur ekki þótt standa sig nægilega vel með Ítalíumeisturum Juventus uppá síðkastið og hefur hann fengið vænan skerf af gagnrýni.

Dybala er sagður hafa hafnað nýjum samningi frá Juve þar sem honum var boðið að þéna 7,5 milljónir evra á ári. Hann er sagður vilja 15 milljónir og hefur verið eftirsóttur af ýmsum stórliðum sem gætu komist nálægt því að uppfylla þessa launakröfu.

Antonio Cassano, fyrrum leikmaður Roma, Real Madrid, Inter og Milan, er ekki ánægður með Dybala og gagnrýndi hann í samtali við Christian Vieri á Twitch.

„Enginn þjálfari hjá Juventus hefur litið á Dybala sem ómissandi part af liðinu, þannig ég velti því fyrir mér hvort hann sé meistari eða frábær leikmaður. Fyrir mér er hann ekki meistari því hann gerir ekki gæfumuninn í leikjum," sagði Cassano.

„Hann hefur skorað frábær mörk eins og ég hef séð (Antonio) Di Natale og (Lorenzo) Insigne gera en hann þarf að gera meira til að vera tían hjá Juventus. Hann þarf að vera meistari til að verðskulda tíuna hjá Juve.

„Mér líður eins og í hvert skipti sem félagið setur pressu á hann þá pissi hann á sig. Og svo biður hann um 10 milljónir evra á tímabili."


Dybala gæti yfirgefið Juve á næstunni þar sem félög á borð við PSG, Tottenham og Chelsea hafa sýnt áhuga.

Argentínumaðurinn, sem rennur út á samningi 2022, er aðeins kominn með tvö mörk í níu deildarleikjum á tímabilinu. Mörkin komu í síðustu tveimur byrjunarliðsleikjunum hans.
Athugasemdir
banner
banner