Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   sun 05. mars 2023 18:28
Brynjar Ingi Erluson
England: Liverpool niðurlægði Man Utd á Anfield
Það var mikil gleði á Anfield í dag
Það var mikil gleði á Anfield í dag
Mynd: Getty Images
Mohamed Salah var stórkostlegur
Mohamed Salah var stórkostlegur
Mynd: Getty Images
Bruno Fernandes og hans menn voru niðurlægðir
Bruno Fernandes og hans menn voru niðurlægðir
Mynd: Getty Images
Liverpool 7 - 0 Manchester Utd
1-0 Cody Gakpo ('43 )
2-0 Darwin Nunez ('47 )
3-0 Cody Gakpo ('50 )
4-0 Mohamed Salah ('66 )
5-0 Darwin Nunez ('75 )
6-0 Mohamed Salah ('83 )
7-0 Roberto Firmino ('88 )

Liverpool gjörsamlega kjöldró Manchester United á Anfield, 7-0, er liðin mættust í 26. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag. Cody Gakpo, Darwin Nunez og Mohamed Salah skoruðu allir tvö mörk.

Mikil ákefð var frá báðum liðum í fyrri hálfleiknum. Liverpool átti nokkur ágætis hálffæri en náði ekki alveg að gera sér mat úr þeim á meðan Bruno Fernandes fékk besta færi United er hann stangaði boltann rétt framhjá eftir fyrirgjöf á 27. mínútu.

Casemiro kom boltanum í netið með skalla eftir aukaspyrnu Bruno Fernandes á 41. mínútu leiksins en markið dæmt af vegna rangstöðu en Liverpool refsaði stuttu síðar.

Andy Robertson fann Cody Gakpo vinstra megin í teignum, hann tók eina gabbhreyfingu á hægri fótinn áður en hann afgreiddi boltann í hægra hornið. Staðan 1-0 í hálleik en sá síðari fer í sögubækurnar.

Man Utd mætti aldrei til leiks og fór það svo að Liverpool labbaði yfir erkifjendur sína.

Darwin Nunez bætti við öðru marki á 47. mínútu eftir fyrirgjöf Harvey Elliott. Nunez stangaði boltann í netið og þremur mínútum síðar gerði Gakpo þriðja markið. Mohamed Salah laumaði boltanum inn á Gakpo sem setti boltann vinstra megin við David De Gea og í netið.

Salah var næstur í röðinni. Nunez reyndi sendingu sem Scott McTominay komst fyrir en boltinn fór aftur á Nunez sem kom boltanum á Salah í teignum og þrumaði Egyptinn boltanum í slá og inn.

Nunez skoraði fimmta markið á 75. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf Jordan Henderson áður en Salah gerði sjötta mark Liverpool með skoti af stuttu færi eftir vandræðagang í vörn United.

Roberto Firmino, sem kom inná sem varamaður, rak síðan síðasta naglann í kistu United er hann klobbaði David De Gea eftir að hafa fengið góða sendingu inn fyrir frá Salah.

Lokatölur 7-0 á Anfield í einhverjum ótrúlegasta síðari hálfleik sem sést hefur. Niðurlæging með ólíkindum og Liverpool nú í 5. sæti með 42 stig, þremur stigum frá Meistaradeildarsæti en United í 3. sæti með 49 stig og svo sannarlega að skrá sig úr titilbaráttunni.
Athugasemdir
banner
banner
banner