sun 05. mars 2023 09:40
Ívan Guðjón Baldursson
Mbappe: Leikurinn gegn Bayern hefur ekki áhrif
Mynd: EPA

Kylian Mbappe varð markahæsti leikmaður í sögu PSG þegar hann skoraði í 4-2 sigri liðsins gegn Nantes í gærkvöldi.


Hinn 24 ára gamli Mbappe þykir einn af allra bestu fótboltamönnum heims og á aðeins eftir að vinna tvær af stærstu keppnum sem eru í boði með franska landsliðinu og PSG - Evrópumót landsliða og Meistaradeild Evrópu.

PSG er í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar og heimsækir FC Bayern á miðvikudagskvöldið. Frakklandsmeistararnir þurfa sigur þar gegn Þýskalandsmeisturunum eftir að hafa tapa fyrri viðureigninni 0-1 á heimavelli.

„Það eru forréttindi að vera leikmaður Paris Saint-Germain. Það er mjög sérstakt fyrir mig að vera partur af PSG liðinu vegna þess að þetta er borgin mín. Ég er hér í Frakklandi, höfuðborginni, mínu landi, minni borg, til að skrifa söguna," sagði Mbappe að leikslokum.

„Þetta er fallegt afrek en ég vil ekki bara vinna einstaklingsverðlaun heldur líka liðsverðlaun. Ég er núna að spara mörkin mín fyrir leikinn gegn Bayern. Við ætlum að fara þangað, sigra og komast áfram í næstu umferð.

„Við erum staðráðnir í því að sigra þennan leik og mætum til leiks fullir sjálfstrausts."

PSG hefur ekki tekist að vinna Meistaradeild Evrópu með Mbappe innanborðs. Liðið endaði í öðru sæti 2020 eftir tap gegn FC Bayern í úrslitaleiknum og hefur Mbappe verið orðaður við brottför frá PSG til að auka sínar eigin líkur á að vinna Meistaradeildina.

„Ég held ekki að þessi leikur gegn Bayern muni hafa áhrif á framtíðina mína. Ég er mjög ánægður hérna hjá PSG og get ekki hugsað um neitt annað en að njóta tilverunnar hér.

„Ballon d'Or? Auðvitað er það markmiðið mitt að vinna Ballon d'Or einn daginn."


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner