Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 05. maí 2021 13:00
Fótbolti.net
Spá þjálfara og fyrirliða í Lengjudeild kvenna: 2. sæti
KR er spáð 2. sæti í Lengjudeildinni
KR er spáð 2. sæti í Lengjudeildinni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Katrín Ómarsdóttir verður spilandi aðstoðarþjálfari í sumar
Katrín Ómarsdóttir verður spilandi aðstoðarþjálfari í sumar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ingibjörg Valgeirsdóttir tekur slaginn með KR í Lengjudeildinni
Ingibjörg Valgeirsdóttir tekur slaginn með KR í Lengjudeildinni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Lengjudeildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið. Liðin fengu stig frá 1-9 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.

Spáin:
1.
2. KR
3. Afturelding
4. Grótta
5. Haukar
6. Augnablik
7. Víkingur
8. HK
9. ÍA
10. Grindavík

Lokastaða í fyrra: KR var í 10. sæti þegar keppni í Pepsi Max-deild kvenna var hætt.

Þjálfarar: Jóhannes Karl Sigursteinsson þjálfarar liðið áfram. Honum til aðstoðar er spilandi aðstoðarþjálfarinn Katrín Ómarsdóttir.

Styrkleikar: Það er styrkur í að hafa haldið töluverðum fjölda af eldri og reyndari leikmönnum og alls ekki sjálfsagt þegar lið fellur. Auðvitað fór hluti þeirra reynslumeiri en það er athyglisvert að sjá að það voru nánast bara leikmenn sem höfðu komið til KR fyrir tímabilið 2020. Leikmenn sem höfðu verið lengur í KR hafa langflestar ákveðið að taka slaginn áfram í Vesturbænum og svara fyrir vonbrigði síðasta sumars.

Veikleikar: Markaskorun hefur verið hausverkur fyrir KR undanfarin ár og spurning hvernig þjálfarateymið ætlar sér að leysa þann vanda. Guðmunda Brynja hefur verið frá allt undirbúningstímabilið vegna meiðsla og ekki fyrirséð hvenær hún verður komin almennilega í gang aftur. KR-ingar verða að treysta á mörk frá erlenda sóknarmanninum Kathleen R. Pingel.

Lykilmenn: Ingunn Haraldsdóttir, Ingibjörg Valgeirsdóttir og Katrín Ómarsdóttir.

Gaman að fylgjast með: Kristín Erla Johnson og Ísabella Sara Tryggvadóttir.

Við heyrðum í Kalla þjálfara og fórum yfir spánna og fótboltasumarið sem er framundan:

Hvað finnst þér um að vera spáð 2. sætinu og kemur það á óvart?
„Það kemur í raun ekki á óvart þar sem við erum að koma niður að okkur sé spáð ofarlega. Það eru miklar breytingar á liðinu en engu að síður sterkur kjarni sem hefur mikla reynslu í liðinu og því eðlileg krafa að við séum ofarlega í deildinni.”

Finnurðu fyrir pressu um að koma liðinu strax aftur upp?

„Það er krafa á að við gerum atlögu að því að fara strax upp aftur, við setjum pressuna að miklu leiti á okkur sjálf og allur undirbúningur tekur mið af því að við ætlum að leggja allt okkar í þetta til að vinna okkur sæti í efstu deild á ný.”

Hver eru markmið liðsins í sumar?

„Markmiðið er að fara upp, það er alveg ljóst að við stefnum á það og höfum hagað undirbúningi þannig. Við vitum líka að það eru mun fleiri en tvö lið með það sem markmið hvort sem það er gefið upp eða ekki þannig að þetta verður hörkubarátta þar sem allar umferðir telja.”

Hvernig hefur undirbúningstímabilið gengið?

„Það hefur gengið á ýmsu hjá okkur. Við erum með miklar breytingar á milli ára og ofan á það hefur verið nokkuð um meiðsli í vetur en það hefur opnað dyrnar fyrir yngri leikmenn sem hafa fengið reynslu og spiltíma sem kemur til með að stækka hópinn okkar í sumar og gera okkur betur undir það búin að spila langt og erfitt tímabil.”

Er liðið mikið breytt frá því í fyrra?

„Já, liðið er mikið breytt en ánægjuefni hversu margir sterkir leikmenn ákváðu að taka slaginn með okkur í fyrstu deildinni. Það gefur yngri leikmönnum mikið að hafa sterka leikmenn með reynslu í hópnum og við erum með lið sem á að geta gert vel ef allt gengur upp.”

Hvernig áttu von á að deildin spilist í sumar?

„Ég á von á að þetta verði jöfn deild, það er ánægjulegt hvað liðin eru að leggja mikið í þetta og metnaður í deildinni. Í raun hefur deildin verið að styrkjast ár frá ári að mínu mati og við sjáum það vel á því hversu sterk liðin sem koma upp eru. Þau lið sem hafa komið upp í efstu deild síðustu ár hafa staðið sig vel þar og þétt deildina til muna. Þannig að ef sú þróun heldur áfram þá erum við að fara að horfa á jafna deild þar sem flest lið geta tekið stig hvert af öðru.”

Komnar:
Svana Rún Hermannsdóttir frá Víkingi
María Soffía Júlíusdóttir frá Víkingi
Sandra Dögg Bjarnadóttir til baka eftir barneignaleyfi.
Katie Pingel frá USA
Arden Holden frá USA

Farnar:
Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir í Breiðablik
Alma Mathiesen í Stjörnuna
Ana Victoria Cate er hætt
Katrín Ásbjörnsdóttir er í pásu
Angela R Beard til Ástralíu
Hlíf Hauksdóttir í Val
Hugrún Lilja Ólafsdóttir er hætt
Kristín Erna Sigurlásdóttir í ÍBV
Lára Kristín Pedersen í Napoli
Þórunn Helga Jónsdóttir er í barneignarfríi

Fyrstu leikir KR:
6. maí Augnablik - KR
13. maí HK - KR
21. maí KR - ÍA
Athugasemdir
banner
banner
banner