„Þetta er ógeðslega pirrandi. Þetta var lokaður leikur og bara glatað," sagði Eiður Aron Sigurbjörnsson varnarmaður ÍBV eftir 0 - 2 tap gegn Stjörnunni í Þjóðhátíðarleiknum í Bestu-deild karla í dag.
Lestu um leikinn: ÍBV 0 - 2 Stjarnan
„Það er bara áfram með þetta. Það lenda allir í mótlæti en við erum ekkert að gefast upp," sagði hann.
Eyjamenn fóru tvisvar fram á að fá vítaspyrnu í leiknum en fengu ekki. Eiður var spurður hvort þeim liði eins og þeir hafi verið rændir í dag?
„Við áttum að fá tvö víti eins og ég sá þetta. Tvö víti!" sagði Eiður en fyrra markið kom þegar leikurinn var lokaður. Átti ÍBV að gera betur þar?
„Já þeir skora svo við eigum að geta gert betur. Þetta gerist hratt og það kemur langur bolti sem dettur fyrir Joey og svo er hann einhvern veginn inni. Það er röð af mistökum sem verða að marki hjá þeim."
Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari Jamaíka var á svæðinu í eyjum í dag. Er hann farinn að aðstoða liðið?
„Hann er til halds þegar hann er í eyjum, Hemmi var í banni í dag og Heimir lætur sjá sig á æfingum og er alltaf í kringum liðið. Hann kemur með ákveðna vídd inn í þetta hjá okkur en hann er enginn seiðkall. Hemmi og Niko eru búnir að leggja grunn fyrir okkur en þegar Heimir kemur leggur hann til eitthvað sem hann sér að laga. Það hjálpast allir að hérna."
Leikurinn fer fram á Þjóðhátíð og Eiður var spurður hvernig helgin yrði það sem eftir lifir?
„Þú talaðir um að við værum í brekku, ætli verðum ekki í brekku áfram alla helgina," sagði Eiður að lokum og hló.
























