'Leifur er toppmaður og mikill leiðtogi þannig það er mikilvægt fyrir HK að halda honum áfram næsta tímabil'
„Það er geggjað að vera kominn aftur í HK," segir Þorsteinn Aron Antonsson við Fótbolta.net.
Hann er orðinn leikmaður HK en félagið kaupir hann frá Val. Miðvörðurinn þekkir vel til hjá HK en hann lék með liðinu á láni á síðasta tímabili.
„Ég segi já við HK því ég finn hvað þjálfarateymið og stjórnin hefur mikla trú á mér og félagið sýndi mér mikinn áhuga. Stefnan er að fara beint upp í efstu deild og HK með mjög gott lið."
Hann er orðinn leikmaður HK en félagið kaupir hann frá Val. Miðvörðurinn þekkir vel til hjá HK en hann lék með liðinu á láni á síðasta tímabili.
„Ég segi já við HK því ég finn hvað þjálfarateymið og stjórnin hefur mikla trú á mér og félagið sýndi mér mikinn áhuga. Stefnan er að fara beint upp í efstu deild og HK með mjög gott lið."
Þorsteinn Aron er 21 árs miðvörður sem uppalinn er á Selfossi en hefur einnig verið á mála hjá Fulham, Stjörnunni, Val og HK.
Hvernig var hugsunin eftir síðasta tímabil, hvað langaði þig að myndi gerast?
„Mig langaði að halda áfram að spila í efstu deild, en ég var opinn fyrir öllu og ég vissi að það væri möguleiki að koma aftur í HK sem mér fannst best í stöðunni núna."
Þarf að fá að spila sem mest
Hvernig hafa síðustu mánuðir verið í smá óvissu um þína framtíð?
„Það var smá erfitt að vera í þessari óvissu, en samt bara spennandi á sama tíma. Það var áhugi frá öðrum félögum í efstu deild og það var möguleiki að vera áfram hjá Val. En ég taldi að ég myndi ekki fá nægilegan spilatíma þar og ég þarf að fá að spila sem mest á þessum aldri."
„Hann ætti að geta kennt mér eitthvað"
Hvernig líst þér á að vinna með þjálfaranum, Hemma Hreiðars?
;,Ég er mjög spenntur að vinna með honum, hef heyrt góða hluti af honum. Mér finnst það líka sérstaklega spennandi því hann var hafsent og er með þessa reynslu og þennan feril, þannig að hann ætti að geta kennt mér eitthvað."
Hermann er fyrrum landsliðs- og atvinnumaður í fótbolta. Hann lék 89 landsleiki og yfir 330 leiki í ensku úrvalsdeildinni.
Mjög gaman að lesa það
Leifur Andri Leifsson, fyrirliði HK, var skýr með það í viðtali í síðasta mánuði að hann vildi að kaupin á Þorsteini Aroni yrðu kláruð. Hvernig var að lesa það og hvernig leggst það í þig að taka annað tímabil með honum í vörninni?
„Það var mjög gaman að lesa það. Leifur er toppmaður og mikill leiðtogi þannig það er mikilvægt fyrir HK að halda honum áfram næsta tímabil."
Vill fara beint aftur upp
Hvað viltu afreka með HK?
„Ég vil fara með þeim beint upp í efstu deild og spila þar með þeim. Ég hugsa þetta þannig að ég er að taka eitt skref afturábak til að taka tvö áfram."
Betra að spila en að vera á bekknum
Þorsteinn Aron hefur verið í yngri landsliðunum og spilaði með U21 gegn Póllandi í nóvember. Er meiri möguleiki á sæti í U21 með því að spila reglulega í HK eða vera í minna hlutverki hjá Val?
„Ég geri mér grein fyrir því að það er ólíklegra að fá kallið í U21 þegar ég er að spila í Lengjudeildinni, en samt er alltaf betra að vera að spila en að vera á bekknum."
Skoraði þrjú mörk, öll sigurmörk og það gegn sama liðinu
Ein bónusspurning. Hvernig gerðist það bara að öll þrjú mörkin sem þú skoraðir síðasta sumar tryggðu eins marks sigur á Fram? Spáðir þú mikið í þessari staðreynd?
„Ég spáði ekki mikið í því en það var mjög skemmtilegt og áhugaverð staðreynd," segir Þorsteinn Aron.
Athugasemdir