banner
   þri 06. júní 2023 16:26
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Tók nauðsynlega ákvörðun og nýtur sín núna vel í dómgæslunni
Magdalena Anna Reimus.
Magdalena Anna Reimus.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Selfossi á síðasta ári.
Í leik með Selfossi á síðasta ári.
Mynd: Hrefna Morthens
Magdalena hér lengst til vinstri.
Magdalena hér lengst til vinstri.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Í bikarúrslitaleiknum 2019.
Í bikarúrslitaleiknum 2019.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fagnar marki.
Fagnar marki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Markmiðið núna er að fá eins mikla reynslu og ég get frá öllum þeim frábæru dómurum sem ég dæmi með'
'Markmiðið núna er að fá eins mikla reynslu og ég get frá öllum þeim frábæru dómurum sem ég dæmi með'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Magdalena Anna Reimus ákvað á síðasta ári að taka sér pásu frá því að spila fótbolta, en hún hafði þá leikið með Selfossi frá árinu 2015, og þá lengst af í efstu deild. Varð hún meðal annars bikarmeistari með liðinu árið 2019.

Magdalena, sem er fædd árið 1995 og uppalin hjá Hetti, tók sér pásu frá því að spila en í dag er hún byrjuð að dæma og hefur hún verið aðstoðardómari á nokkrum leikjum í Bestu deildinni nú þegar. Hún á að baki meira en 100 leiki í þeirri deild sem leikmaður.

„Skórnir eru komnir upp í hillu í einhverja pásu. Ég ætla ekki segja að ég sé alveg hætt eða að að ég muni ekki fara í þá aftur. Það sem gerist í framtíðinni gerist, en eins og er þá hef ég ákveðið að taka hlé frá því að spila og vera meira heima með kærustunni minni," segir Magdalena í samtali við Fótbolta.net.

Andlega heilsa líklega stærsti þátturinn í því
Magdalena segir nokkrar ástæður fyrir því að hún tekur sér pásu frá því að spila fótbolta, en líklega sé andlega heilsa stærsta ástæðan fyrir því.

„Það eru margir sem tengjast því að ég tek mér pásu, en andlega heilsan er líklegast stærsti parturinn af því," segir Magdalena. „Svo líka, eins og ég nefndi áðan, að geta verið meira heima hjá mér."

„Þetta var mjög erfið ákvörðun og var ég lengi að hugsa hvað ég ætti að gera. Ég hef verið að verið að hugsa þetta síðustu tvö árin. Þetta er erfitt því maður missir hluta af sjálfum sér, fótbolti er fyrir mér er ekki bara að sparka í bolta; ég elska fótbolta hvort sem það er sem fótboltakona, þjálfari, dómari eða áhorfandi. Hvað það sem ég geri í kringum fótbolta þá elska ég það og ég er með rosalega miklar tilfinningar og ástríðu fyrir þessu. Ég var stressuð þegar ég sagði kærustunni minni fyrst frá ákvörðuninni minni en svo liðu nokkrir dagar og þá leið mér ágætlega."

„Það er nóg að gera þannig að maður gleymdi sér í því, en svo einn daginn sit ég heim og þá leið mér ekki vel. Ég er þannig týpa að ég hugsa dýpra í hvaða tilfinningar ég er með, og þá uppgötvaði ég ég er leið, sár og með margar aðrar tilfinningar þegar ég hugsaði um að spila ekki fótbolta. Það var í raun eins og að missa besta vin sin. Þetta er ein erfiðasta ákvörðun sem ég hef tekið en nauðsynleg ákvörðun fyrir mína andlegu heilsu," segir Magdalena.

Að spila og æfa lagði meira álag á andlegu heilsuna
Magdalena segist hafa verið orðin þreytt andlega og að fótboltinn hafi ekki verið að hafa jákvæð á það á síðasta ári. Það er mikil vinna sem felst í því að æfa og spila fótbolta í efstu deild, og það er ekki sjálfgefið að gera það - sérstaklega þegar þú ert með nóg annað á þinni könnu líka.

„Það var orðið svo erfitt að mæta á æfingar því andlega var ég svo þreytt og buguð," segir Magdalena en hún var ekki að njóta þess að spila fótbolta lengur. „Svo kom maður heim og það bitnaði á öllum heima. Ég hafði ekki gaman að fótbolta lengur, mig langaði ekki að fara á æfingu. Þetta var meira að ég þurfti að gera það. Þetta var orðið þannig að mér fannst ég ekki nægilega góð til að vera þarna. Síðustu tvö ár er ég búin að fá tvisvar kvíðakast á æfingu því ég var svo stressuð fyrir hlutunum, að ég væri ekki að gera hlutina nægilega vel. Ég er þannig týpa að ég vil gera allt vel og gera það 100 prósent. Ég var ekki í standi til þess."

„Fótboltinn lagði meira álag á andlegu heilsuna. Það eru margar fórnir sem felast í fótboltanum og þetta tekur mikið úr deginum," segir hún og bætir við en var það góð ákvörðun að taka þessa pásu?

„Það er mjög skrítið að segja þetta því mér fannst þetta svo ótrúlega erfitt fyrst, en mér líður mjög vel að vera ekki föst í einhverju. Ég hef meiri sveigjanleika og ég get tekið mér hlé í því sem ég er að gera. Fótboltinn er stór hlutur fyrir mig og ég veit ekki hvort ég muni spila aftur, en í augnablikinu er það gott fyrir mig og fjölskylduna - sem ég er að reyna að byggja upp - að ég sé að taka pásu. Það er gott að ná að slaka á, algjörlega. Ég er búin að vera í meistaraflokki síðan ég var 14 ára og ég hef misst af mörgu út af því, en ég sé ekki eftir neinu."

Fór að dæma
En hún gat ekki skilið alveg við fótboltann og byrjaði því að dæma, sem tekur kannski ekki alveg jafmikið pláss í lífinu. Með því að dæma getur hún áfram verið hluti af fótboltasamfélaginu.

„Ég hef tekið nokkra leiki í neðri deildum fyrir KSÍ síðustu tvö, þrjú árin. Mér finnst það gaman og maður sér leikinn öðruvísi. Þú ert að taka þatt í leiknum á einhvern hátt, sem ég elska. Ég er mikill fótboltaaðdáandi og þegar ég ákvað í vetur að spila ekki, þá heyrði ég í Magga (dómarastjóra KSÍ) og sagði honum að ég væri til í að prófa að dæma aðeins meira."

„Hann tók vel í það og þá byrjaði ég strax að taka leiki í febrúar. Núna þegar ég hef fengið aðeins meiri innsýn inn í dómgæsluna og hef fengið að taka þátt í þessu að alvöru þá finn ég það að ég er góð í því og hef gaman að þessu. Vonandi mun ég hafa þau áhrif að geta gert fótboltann á Íslandi enn betri en hann er," segir Magdalena en hvernig finnst henni hafa gengið í fyrstu leikjunum?

„Mér finnst hafa gengið ágætlega, en eins og þegar maður er leikmaður þá getur maður alltaf gert suma hluti betur. Ég geri alveg mistök eins og við öll, en það er hluti af leiknum líka. Ég hef reynt að taka alltaf eitthvað eitt úr leikjum sem ég gerði mjög vel og eitthvað eitt sem ég vil gera betur í leiknum á eftir til að þróa mig í þessu og gera mig að betri dómara"

„Ég hlakka til næsta leiks strax þar sem ég veit að ég vil gera betur. Ég hef ekki fundið fyrir svona hlökkunartilfinningu lengi og það er ótrúlega gaman og gott að finna fyrir því aftur; að vera spennt og á sama tíma stressuð fyrir leik og vilja gera vel. Það mætti segja að ég sé ekki hætt, ég skipti bara lið og er í öðruvísi treyju en ég er áfram hluti af leiknum."

Skemmtilegra með hverjum leiknum
Magdalena finnur fyrir því að dómgæslan verði skemmtilegri með hverjum leiknum sem hún dæmir og ætlar hún að nýta þetta sumar í að sækja sér reynslu.

„Fyrst hugsaði ég að ég myndi sjá hvernig hlutirnir þróast, hvort þetta væri eitthvað fyrir mig eða hvort ég ætli að spila aftur. En um leið þá fann ég að þetta er skemmtilegra með hverjum leiknum svo ég sé alveg fyrir mér að halda áfram í þessu," segir Magdalena en er hún búin að setja sér markmið í þessu nýja starfi?

„Markmiðið núna er að fá eins mikla reynslu og ég get frá öllum þeim frábæru dómurum sem ég dæmi með, að fá að dæma eins marga leiki og ég get í sumar og fá vonandi landsdómararéttindi fyrir næsta tímabil. Svo sjáum við hvað mun gerast."

„Markmiðið er líka að gera kvennafótbolta á Íslandi enn betri, að hafa sömu gildi og 'standard' á milli karla- og kvennaboltans. Ég vil reyna að hafa eins mikil áhrif og ég get í að gera kvennaboltann enn betri. Ég tel að það sé mikilvægt að við hérna á Íslandi tökum þátt í þessari þróun sem hefur verið í kvennaboltanum í Evrópu, við mætum vel á leiki og styðjum vel við bakið á kvennaknattspyrnu," sagði Magdalena að lokum.

Það vantar alltaf fleiri dómara hér á Íslandi en um er að ræða gríðarlega óeigingjarnt starf þar sem þú getur haft góð áhrif á íslenskan fótbolta. Það er vonandi að Magdalena verði fyrirmynd fyrir aðra leikmenn sem vilja áfram starfa innan fótboltans eftir að skórnir eru settir upp á hillu.

KSÍ hefur núna farið af stað með verkefnið: 'Átak vegna hegðunar í garð dómara 2023'. Tilgangur verkefnisins er einmitt að vekja athygli á störfum dómara og mikilvægi þeirra fyrir fótboltann. Við hvetjum alla til að kynna sér verkefnið.
Athugasemdir
banner
banner
banner