fim 06. október 2022 15:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Glódís Perla: Þetta er mjög skrítið fyrirkomulag
Icelandair
Glódís Perla Viggósdóttir.
Glódís Perla Viggósdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Við getum tekið með okkur þetta svekkelsi og reynt að nýta það eitthvað í gott, breyta því í jákvæða tilfinningu og komast vonandi á HM," segir Glódís Perla Viggósdóttir, varafyrirliði landsliðsins, í samtali við KSÍ TV.

Framundan er gríðarlega mikilvægur leikur í umspilinu fyrir HM þar sem Ísland spilar hreinan úrslitaleik upp á það að komast inn á heimsmeistaramótið í fyrsta sinn.

Íslenska liðið fær ekki að vita það fyrr en síðar í dag hver andstæðingurinn verður, en stelpurnar okkar mæta sigurliðinu úr leik Belgíu og Portúgal á eftir.

„Þetta er mjög skrítið fyrirkomulag hjá UEFA, FIFA eða hverjum sem er að setja þetta upp. Þetta er allt öðruvísi en maður er vanur," segir Glódís en hún segir þetta líka vera jákvætt fyrir liðið þó óvissan sé nokkur.

„Ég held samt að þetta sé fínt. Við náum að einbeita okkur meira að okkur og því sem við þurfum að laga. Þetta eru grundvallaratriði sem við þurfum að fínpússa. Ég held að þetta sé jákvætt að vissu leyti að við getum 100 prósent einbeitt okkur að okkur, allavega fyrstu dagana."

Glódís leikur með stórveldinu Bayern München í Þýskalandi. Nýverið var dregið í riðla í Meistaradeildinni en þar er Bayern í riðli með Barcelona, Rosengård og Benfica. Glódís lék með Rosengård áður en hún fór til Bayern.

„Mér líst mjög vel á riðilinn. Ég held að allir riðlarnir séu sterkir og þetta verður mikið af góðum leikjum. Ég vildi fá Barcelona og Rosengård þannig að ég er mjög ánægð með þetta. Maður vill spila á móti þeim bestu í Barcelona. Svo verður gaman að fara heim til Malmö að spila. Við vorum með Benfica í riðli í fyrra og þekkjum þær. Við erum í styrkleikaflokki tvö og gerum þá kröfu að fara upp úr þessum riðli," segir Glódís.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner