Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
banner
   fös 06. nóvember 2020 20:31
Victor Pálsson
„Bjarni Jó hugsar bara um rassgatið á sjálfum sér"
Mikael Nikulásson.
Mikael Nikulásson.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Bjarni Jó.
Bjarni Jó.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Mikael Nikulásson var látinn fara frá Njarðvík á dögunum en sú ákvörðun stjórnar félagsins kom mörgum í opna skjöldu eftir ansi góðan árangur í sumar.

Njarðvík var að berjast fyrir því að komast í Lengjudeildina á nýjan leik undir stjórn Mikaels áður en tímabilið var flautað af vegna faraldur kórónuveirunnar.

Í dag var svo gefið út að þeir Bjarni Jóhannsson og Hólmar Örn Rúnarsson væru búnir að taka við liðinu eins og búist var við.

Mikael var með um 60 prósent sigurhlutfall hjá Njarðvík en hann var gestur í hlaðvarpsþættinum Mín skoðun í dag og ræddi þar við umsjónarmann þáttarins Valtý Björn Valtýsson.

Mikael ræðir þar ítarlega þessa ákvörðun félagsins að láta hann fara og er að sjálfsögðu ekki sáttur með vinnubrögðin. Mikael tók við Njarðvík fyrir tímabilið í sumar.

„Miðað við viðbrögðin sem ég hef fengið þá hef ég aldrei lent í öðru eins. Þeir verða að eiga þetta við sjálfa sig, þetta er eins og hnífsstunga, er það ekki bara ágætis orð," sagði Mikael.

„Ég veit nákvæmlega hvaðan hún kemur en svo auðvitað viðurkenna menn ekkert þegar þangað er komið. Ég er ekki vitlaus og veit nákvæmlega úr hvaða átt hún kemur."

„Svo er Bjarni Jó að taka við og það er það sorglega við þetta. Það er eina ástæðan. Það voru allir sáttir með árangurinn hjá Njarðvík í sumar. Ég hef sagt það í viðtölum áður að ég var eiginlega sá eini sem var ekki almennilega sáttur því ég vildi fara upp."

Njarðvík átti möguleika á að komast upp ef mótið hefði ekki verið flautað af. Liðið endaði í fjórða sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir Selfoss sem er í öðru sætinu og fer upp.

Mikael segir að margir hlutir hafi batnað með hans komu til félagsins og minnir á góðan árangur við stjórnvölin.

„Það er alveg ljóst að við vorum í séns að fara upp þegar mótið var flautað af. Við vorum ekki í svakalega miklum séns en vorum aðeins þremur stigum frá því að fara upp og með betri markatölu en Selfoss sem að mínu mati átti mun erfiðari leiki eftir."

„Mér sýnist það að ég hafi stýrt liðinu í 38 leikjum með æfingaleikjum og við töpuðum sjö eða átta. Það er alveg ljóst að það var enginn að spá í þessu. Ég er á samningi - ég hefði skilið það ef samingurinn væri útrunninn og menn hefðu viljað breyta til. Árangurinn var fínn og ég hef sagt það áður, það var margt ekki í lagi þegar ég kom þarna."

„Þetta er flottur klúbbur með flottar aðstæður og það er hægt að gera flotta hluti þarna. Ég átti stóran þátt í að kippa sumum hluti í liðinn og sérstaklega hvað varðar meistaraflokk. Það eru alltaf einhverjir leikmenn eða kannski stjórn sem eru ekki sáttir við hitt eða þetta. Það er í öllum liðum þar sem eitthvað er að."

Bjarni sagði skilið við Vestra þann 14. október síðastliðinn en liðið náði góðum árangri undir hans stjórn í næst efstu deild. Liðið hafnaði í sjöunda sætinu með 30 stig úr 20 leikjum.

Mikael veit að þessi ákvörðun hefði aldrei verið tekin ef Bjarni hefði ekki sagt skilið við Vestra í síðasta mánuði.

„Á endanum er einn maður á lausu sem heitir Bjarni Jóhannsson því hann hættir að þjálfa Vestra og gerði fína hluti þar, hann er á lausu. Ef hann hefði endursamið við Vestra, værum við í þessari stöðu núna? Þeir sögðu við mig nei. Það er eitt það lélegasta sem ég veit um. Segjum að Bjarni hefði verið áfram með Vestra og ég með Njarðvík þá væri ég samt að vinna fyrir svona menn sem hugsa svona."

„Af hverju ætti ég að vilja vinna með svona mönnum? Eins og ég sagði við framkvæmdarstjórann í gær og ég tala bara hreint út þá ef við hefðum farið upp og Bjarni hefði verið laus hefði þessi ákvörðun verið tekin? Nei, það hefði bara ekki verið hægt."

„Menn þurfa að sýna smá heiðarleika. Það er alveg klárt mál að Bjarni Jó sé ekki að gera þetta í fyrsta skiptið, hann hugsar bara um rassgatið á sjálfum sér og það er mín skoðun. Ég kann ágætlega við Bjarna en ég persónulega myndi aldrei taka svona að mér þar sem annar þjálfari er með starfið."

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér


Athugasemdir
banner
banner
banner