Chelsea gæti gert tilboð í Garnacho - Man City vill Cambiaso - Dortmund dregur sig úr baráttunni um Rashford
   fös 06. desember 2024 18:32
Brynjar Ingi Erluson
„Trent verður harðlega gagnrýndur ef hann fer frítt“
Trent Alexander-Arnold
Trent Alexander-Arnold
Mynd: Getty Images
Steve McManaman fór frítt frá Liverpool til Real Madrid árið 1999
Steve McManaman fór frítt frá Liverpool til Real Madrid árið 1999
Mynd: Getty Images
Fyrrum Liverpool-maðurinn Jamie Carragher hefur ráðlagt Trent Alexander-Arnold að framlengja samning sinn við Liverpool í stað þess að fara frítt á næsta ári.

Trent er uppalinn Liverpool-maður en þessi 26 ára gamli hægri bakvörður verður samningslaus eftir tímabilið og er talið líklegt að hann sé á leið til Real Madrid.

Hann hefur náð mögnuðum árangri með Liverpool síðan hann spilaði sinn fyrsta leik, unnið allt og er í dag í hóp með bestu hægri bakvörðum heims.

Það er samt örlítið óbragð í munni hjá stuðningsmönnum Liverpool að mögulega missa uppalinn leikmann á frjálsri sölu til helsta keppinaut félagsins í Meistaradeildinni.

„Trent ætti að vera elskaður sama hvað verður, en þetta verður meira virðing en ást ef hann fer í sumar. Leikmenn sem eru uppaldir fá öðruvísi meðhöndlun en erlendu stjörnurnar. Þannig er það bara. Ég er ekki viss um að hann fái sérstakan borða á Kop sem stendur á: „Gefið Trent það sem hann biður um“, alla vega ekki á næstunni. Þegar það kemur að uppöldu leikmönnunum er það meira: „Þú ert að spila fyrir Liverpool. Hvað viltu meira?“,“ sagði Carragher í Telegraph.

Eins og Carragher greinir frá gæti Liverpool fengið 90 milljónir punda eða meira fyrir Trent, en hann yrði ekki sá fyrsti til að fara frítt frá Liverpool til Real Madrid. Steve McManaman gerði það sama árið 1999.

Á þeim tíma var McManaman gagnrýndur og sakaður um græðgi þegar hann fór frá Liverpool. Carragher vonar að Trent geri ekki slíkt hið sama.

„Trent verður harðlega gagnrýndur ef hann fer frítt því hann er metinn á um það bil 90 milljónir punda, en fólk mun sætta sig meira við að missa Salah og Van Dijk á Bosman-reglunum, jafnvel þó þeir hafi kostað 40 milljónir og hinn 75 milljónir. Trent kostaði ekki neitt og færi því á sama verði. Ef ég gæti gefið Trent eitt ráð þá væri það að framlengja samninginn og setja raunhæft kaupákvæði þannig að möguleikinn væri til staðar ef tækifærið kemur aftur upp. Þannig ef Real Madrid hefði áhuga þá gæti Liverpool fengið smá pening og það yrði munað eftir honum sem besta hægri bakverði í sögu Liverpool,“ sagði hann enn fremur.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner