sun 07. febrúar 2021 20:56
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Danmörk: Jón Dagur með sigurmark - „Staða Sveins ekki góð"
Jón Dagur Þorsteinsson.
Jón Dagur Þorsteinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sveinn Aron Guðjohnsen.
Sveinn Aron Guðjohnsen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kantmaðurinn Jón Dagur Þorsteinsson skoraði sigurmark AGF þegar liðið hafði betur gegn Lyngby í dönsku úrvalsdeildinni.

Jón Dagur, sem er fyrirliði U21 landsliðsins, skoraði markið eftir fimm mínútur í seinni hálfleiknum. Það reyndist eina markið í leiknum.

AGF er í öðru sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 28 stig, þremur stigum frá toppliði Bröndby. Frederik Schram er varamarkvörður hjá Lyngby sem er í næst neðsta sæti deildarinnar.

Hjörtur Hermannsson kom inn á í hálfleik þegar Bröndby gerði jafntefli við AaB frá Álaborg. Leikurinn endaði 1-1 og komu bæði mörk í seinni hálfleik. Bröndby er sem fyrr segir á toppi deildarinnar.

Staða Sveins ekki góð
U21 landsliðsmennirnir Ísak Óli Ólafsson og Sveinn Aron Guðjohnsen voru ekki í hóp hjá sínum liðum í dag; Ísak ekki í hóp hjá SönderjyskE í tapi gegn Vejle á heimavelli og Sveinn ekki í hóp OB í 2-0 útisigri á Nordsjælland. Aron Elís Þrándarson spilaði þar síðustu mínúturnar hjá OB sem er í sjöunda sæti deildarinnar.

Orri Rafn Sigurðarson, sem er lýsandi hjá Viaplay í Danmörku, segir að staða Sveins hjá OB sé áhyggjuefni. Hann er í láni þar frá Spezia í Danmörku.

„Staða Sveins Guðjohnsen hjá OB er ekki góð. Hann hefur einungis spilað 104 mínútur í deild síðan hann kom í September. Samkvæmt heimildum frá OB svæðinu á Michelsen, þjálfari OB, að hafa talað við Svein og tilkynnt honum að hann væri ekki partur af hans 18 manna hóp," skrifaði Orri á Twitter.

Sveinn og Ísak eru báðir mikilvægir í U21 landsliðinu sem tekur þátt í riðlakeppni lokamóts EM í mars næstkomandi. Ísak hefur aðeins spilað átta mínútur í dönsku úrvalsdeildinni á tímabilinu.




Athugasemdir
banner
banner
banner