„Við erum auðvitað mjög vonsviknir með úrslitin," sagði Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool, eftir 1-4 tap gegn Manchester City á heimavelli í dag.
Ríkjandi Englandsmeistarar Liverpool hafa núna tapað þremur heimaleikjum í röð; gegn Man City, Brighton og Burnley. Liðið er núna í fjórða sæti með 40 stig, tíu stigum frá Manchester City sem á einnig leik til góða á Liverpool.
„Ég tel að úrslitin endurspegli ekki frammistöðuna en við gerðum mistök og okkur var refsað fyrir það."
„Við börðumst vel og þetta var líkari frammistöðu sem við erum vanir en eins og ég segi, þá gerðum við mistök og það kostaði okkur," sagði Henderson.
„Það er erfitt að taka þessu en í fótbolta verðurðu að vera fljótur að jafna þig. Við verðum að nota þessa viku í að undirbúa okkur fyrir erfiðan leik gegn Leicester."
„Við erum ekki að líta á töfluna. Við hugsum bara um næsta leik og reynum að vinna alla leiki sem við förum í, sama í hvað sæti við erum í."
Athugasemdir