KA og KR mættust í 1. umferð Bestu deildarinnar í gær á Greifavellinum. Leikurinn var mjög skemmtilegur, færi á báðum endum og mikið líf. Tempóið í leiknum róaðist stundum þegar Halldór Snær Georgsson í marki KR fékk boltann.
Halldór, sem var að spila sinn fyrsta leik í efstu deild, fékk að koma út úr teig sínum með boltann við tærnar og fékk nægan tíma til að athafna sig. Það var skýrt að upplegg KA var að pressa hann ekki. En hvers vegna?
Halldór, sem var að spila sinn fyrsta leik í efstu deild, fékk að koma út úr teig sínum með boltann við tærnar og fékk nægan tíma til að athafna sig. Það var skýrt að upplegg KA var að pressa hann ekki. En hvers vegna?
Lestu um leikinn: KA 2 - 2 KR
„KR-ingar vilja að markmaðurinn sé pressaður, þeir nota hann sem aukamann aftast í uppspilinu. Það em við gerðum var að fara maður á mann í pressu en létum markmanninn í friði. Það þvingaði hann í að annað hvort sparka langt, sem við vorum tilbúnir að díla við, eða í að spila boltanum með fram jörðinni inn á miðjuna þar sem við gætum étið boltann og keyrt á þá," segir Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, við Fótbolta.net.
„Ég var bara sannfærður um það, eftir að hafa séð hvernig staðan var á hópnum mínum og hafa leikgreint KR, að við gætum skapað fullt af færum ef við myndum spila leikinn eins og við gerðum. Þetta var bara hluti af því og það rættist. Við fengum 5, 6, 7 dauðafæri í leiknum og því miður var jafntefli í hálfleik. Við áttum að skora meira og áttum ekki að fá á okkur allavega annað af þessum mörkum."
„Það leit kannski furðulega út að vera hápressa en láta markmanninn í friði, en ég var bara búinn að sjá þá á móti Fylki og Víkingi og taldi þetta best. Þegar Víkingur pressaði KR þá náðu KR-ingar að spila út. Það var atvik í gær þar sem Hrannar Björn var kominn frekar ofarlega og ákvað að pressa markmanninn, þá spiluðu þeir okkur sundur og saman og komust í gegnum okkur."
„Ég veit að Halldór var tilbúinn að taka áhættu með því að gefa sendingar meðfram jörðinni þegar við létum hann í friði. Við gerðum það og þegar við unnum boltann þá voru þeir ekkert voðalega vel staðsettir á vellinum. Það voru fleiri atriði þar sem við hefðum átt að vera aðeins klókari og þá hefðum við getað fengið enn fleiri færi."
Varstu að hugsa að undir einhverjum öðrum kringumstæðum myndi KA pressa markmanninn, ef ákveðnir leikmenn væru til taks eða svoleiðis?
„Nei, í rauninni ekki. En við erum ekki að fara gera þetta í öllum leikjum, í fullt af leikjum þá pressum við markmanninn. Ég taldi bara best að gera það ekki í þessu tilviki, leyfa honum að taka erfiðar ákvarðanir."
„Mér fannst við betri í þessum leik heldur en gegn Breiðabliki þegar við unnum boltann. Við vorum að hreyfa okkur meira eins og við viljum gera. Ég er ótrúlega ánægður með leikinn, pirrandi að við höfum ekki unnið hann en frammistaðan var virkilega jákvæð. Strákarnir gerðu nákvæmlega það sem ég bað þá um og mér fannst leikplanið ganga upp."
Vonast eftir liðsstyrk og óvissa með Bigga
Haddi vonast eftir liðsstyrk fyrri gluggalok en segir ekkert vera í hendi. „Við erum að leita og það eru allir sammála um að við ætlum að styrkja okkur. Við þurfum að finna rétta aðilann."
Eftir leikinn í gær sagði Haddi að Jóan Símun Edmundsson yrði klár í næsta leik. En hvernig er staðan á Birgi Baldvinssyni?
„Ég veit ekki alveg hvernig staðan er á honum, hann er byrjaður að æfa með okkur, en veit ekki hvenær hann verður klár. Jóan er búinn að ná sér eftir nefbrot og er bara klár," segir þjálfarinn.
KA mætir Víkingi á útivelli í 2. umferð næsta sunnudag.
Athugasemdir