
HK komst aftur á sigurbraut í Lengjudeild karla er liðið bara 1-0 sigurorð af liði Leiknis í Kórnum. Sigurinn færir lið HK enn nær toppliðum deildarinnar ÍR og Njarðvík sem gerðu 2-2 jafntefli í innbyrðis leik í kvöld. Hermann Hreiðarsson þjálfari HK var til viðtals við Fótbolta.net að leik loknum.
Lestu um leikinn: HK 1 - 0 Leiknir R.
„Í fyrri hálfleiknum vorum við ógnarsterkir, þá fáum við töluvert af færum og stýrum leiknum. Það var því kannski klaufagangur hjá okkur að vera ekki búnir að bæta aðeins í þetta.“
Lið HK er líkt og fyrr segir að koma til baka eftir tap gegn liði Þórs í síðustu umferð.
„Frammistaðan í síðasta leik var líka góð og við fengum færi þar líka í fyrri hálfleik til að koma okkur í góða stöðu. Við höldum bara áfram, við erum með frammistöðu viku eftir viku og maður verður bara að hrósa liðinu. Það hefur sett viðmiðið hátt og við höldum því. “
Lið Leiknis náði á köflum að þrýsta lið HK djúpt á völlinn án þess þó að skapa sér nein afgerandi færi sem kalla má. Hvernig leið Hemma sem er annálaður rólyndismaður á þeim augnablikum? Púlsinn eitthvað farinn að hækka?
„Nei nei, þetta var alveg silki. Nema kannski í einhverjum þremur til fjórum atriðum. Okkur leið allt í lagi í þeirri stöðu því við vorum að fá miklu betri færi. Fá þessi dauðafæri en við hefðum þurft að nýta þau.“
Fréttaritari nýtti tækifærið og spurði Hermann sem eins og alþjóð veit er úr Vestmannaeyjum hvort að hann hefði skipulagt hópferð með liðið á Þjóðhátíð sem senn fer í hönd,
„Nei við ætlum að taka okkur frí þetta árið frá Þjóðhátíð“
Sagði Hermann kíminn en bætti síðan við.
„Það eru örugglega einhverjir sem ætla að fara en eins og allir aðrir gerum við bara eitthvað skemmtilegt um verslunarmannahelgina.“
Sagði Hermann en allt viðtalið við hann má sjá hér að ofan.
Athugasemdir