Eddie Howe, stjóri Newcastle United, tjáði sig um sænska framherjann Alexander Isak á blaðamannafundi í æfingaferðalagi félagsins í Singapúr í morgun, en hann segist enn vongóður um að halda leikmanninum.
Isak fór ekki með Newcastle í ferðina en samkvæmt Fabrizio Romano vill hann skoða markaðinn og fullyrðir hann að Isak vilji komast til Liverpool.
Liverpool er sagt undirbúa risatilboð í Isak á næstu dögum og þá er Newcastle byrjað að skoða mögulega arftaka.
Isak hefur verið einn heitasti framherji ensku úrvalsdeildarinnar síðustu ár og yrði það mikil högg fyrir Newcastle að missa hann á þessum tímapunkti.
Howe segist bjartsýnn á að halda Isak, en að það sé ekki hann sem mun ákveða það.
„Ég get ekki setja tímaramma á þetta. Í svona stöðu þarf þetta að vera rétt fyrir félagið og síðan er allt annað tekið inn í samhengið.“
„Félagið þarf að taka rétta ákvörðun með allar þær upplýsingar sem það hefur í höndum sér og síðan færa það skref áfram, hver svo sem sú leið sé. Það er síðan undir okkur komið að taka góðar ákvarðanir í leiðinni og reyna að bæta hópinn eins vel og við mögulega getum. Það er það sem við erum að reyna að gera, burt séð frá stöðu Alex.“
„Ég held samt að þetta sé aðeins víðari mynd. Það er heilt félag sem þarf að taka þessa ákvörðun. Eigendurnir, ásamt stjórnarmönnum, og sérstaklega í ljósi hve miklum peningum er varið í félagaskipti í dag. Stjórinn er auðvitað með skoðun, en það er stjórnin sem mun taka ákvörðun.“
„Auðvitað er eitthvað í gangi á bak við tjöldin. Hann verður var við það að hann sé í fréttunum á hverjum degi og ég er viss um að það sé ekki auðvelt fyrir neinn að vera í þeirri stöðu. Samtölin sem hafa átt sér stað milli Alex og félagsins og milli mín og Alex eru af augljósum ástæðum áfram trúnaðarmál. Við eigum í mjög góðu sambandi við hann.“
„Hann hefur verið stórkostlegur fyrir okkur og er mjög vinsæll í klefanum. Við myndum elska það ef hann heldur áfram vegferð sína með Newcastle og ég vona að hann verði áfram. Ég sagði síðustu helgi að ég væri bjartsýnn á að hann verði áfram og ég sé ekki þá skoðun breytast. en þetta er fótbolti og það veit enginn hvað framtíðin ber í skauti sér,“ sagði Howe.
Athugasemdir