Breiðablik mætir írska liðinu Shamrock Rovers í fimmtu umferð Sambandsdeildarinnar á morgun. Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði liðsins var vongóður fyrir leik morgundagsins er hann ræddi við Fótbolta.net eftir blaðamannafund Breiðabliks.
„Ég er mjög vel stefndur, komin mikil tilhlökkun núna. Skemmtilegur andstæðingur, verðugur leikur.“
Liðin mættust 2023 í forkeppni Meistaradeildarinnar og þá vann Breiðablik í báðum viðureignum liðanna; 1-0 útisigur í Dublin og svo 2-1 sigur á Kópavogsvelli. Höskuldur skoraði fyrra mark Blika á Kópavogsvelli.
„Það var hörkueinvígi, að sama skapi í fyrra, gegn Víkingi, líka. Við Íslendingar ættum að fara kannast við þetta lið. En eins og Óli sagði á blaðamannafundinum; það hafa orðið breytingar og við erum ekki mikið að horfa í þessa leiki.
Það eru leikmenn þarna sem maður kannast við og ákveðnir hlutir sem eru sambærilegir við fyrri leikina gegn þeim en þessi leikur á sitt eigið líf.“
Breiðablik átti góða frammistöðu er liðið gerði 1-1 jafntefli við Samsunspor á Laugardalsvelli í síðastu umferð Sambandsdeildarinnar.
„Við tökum fullt úr þeim leik. Það var margt sem við gerðum mjög vel og við þurfum að yfirfæra á leikinn á morgun.“
Athugasemdir
























