Man Utd gæti átt von á tilboði frá Napoli í Alejandro Garnacho - Bayern München vill Mainoo - Man City til í að hleypa Walker frítt
   lau 07. september 2024 15:37
Ívan Guðjón Baldursson
Vålerenga áfram í Meistaradeildinni - Íslendingaliðin sigruðu
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Aðsend
Það er nóg um að vera í kvennaboltanum um helgina á meðan það er landsleikjahlé hjá körlunum.

Það er mikið af leikjum á dagskrá í dag og komu nokkur Íslendingalið við sögu víðsvegar um Evrópu.

Í forkeppni Meistaradeildarinnar mættust ýmis félög og eru ekki öll sigurlið dagsins komin áfram í næstu umferð forkeppninnar vegna nýs skipulags í keppninni.

Til dæmis sigruðu Bröndby og Nordsjælland leiki sína gegn Kolos Kovalivka og KÍ, en komast ekki áfram í næstu umferð útaf því að þau töpuðu gegn Benfica og Fiorentina í fyrstu umferð.

Emilía Kiær Ásgeirsdóttir var ekki í hóp hjá Nordsjælland sem lagði KÍ að velli í Færeyjum á meðan Hafrún Rakel Halldórsdóttir fékk að spila síðasta hálftímann í sigrinum gegn Kolos, en Ingibjörg Sigurðardóttir sat á bekknum.

Linköping vann þá 8-0 stórsigur á First Vienna en kemst ekki í næstu umferð eftir tap gegn Sparta Prag í fyrstu umferð.

María Catharina Ólafsdóttir Gros var í byrjunarliði Linköping og skoraði annað mark leiksins í stórsigrinum.

Sædís Rún Heiðarsdóttir og stöllur í liði Vålerenga eru hins vegar komnar í næstu umferð eftir sigur á Farul Constanta frá Rúmeníu.

Sædís byrjaði á bekknum en staðan var 1-1 í leikhlé og heimakonur í liði Vålerenga einum leikmanni færri. Sædísi var þá skipt inn í hálfleik og urðu lokatölur 3-1 fyrir norska stórveldið þó það hafi verið ójafnt í liðum stærsta hluta leiksins.

Þá vann OH Leuven góðan sigur á Standard Liege í efstu deild í Belgíu þar sem Diljá Ýr Zomers var á sínum stað í byrjunarliðinu.

Liðin mættust í 2. umferð á nýju deildartímabili þar sem Leuven fer vel af stað og er með sex stig eftir sigur gegn Club Brugge í fyrstu umferð. Leuven endaði í þriðja sæti deildarinnar á síðustu leiktíð eftir að hafa verið á toppinum fyrir tvískiptinguna.

Í norska boltanum lék Ásdís Karen Halldórsdóttir allan leikinn í 1-0 sigri Lilleström gegn Roa og er Lilleström fimm stigum frá meistaradeildarsæti eftir sigurinn.

Að lokum hafði Norrköping betur gegn Växjö í efstu deild sænska boltans, en Sigdís Eva Bárðardóttir sat allan leikinn á bekknum í liði heimakvenna.

Bryndís Arna Níelsdóttir var í byrjunarliði Växjö og spilaði Þórdís Elva Ágústsdóttir síðasta hálftímann. Bæði lið sigla lygnan sjó, þar sem Norrköping er 12 stigum frá meistaradeildarsæti á meðan Växjö er 10 stigum fyrir ofan fallbaráttuna.

Brondby 2 - 1 Kolos Kovalivka

Klaksvik 0 - 2 Nordsjælland

Linkoping 8 - 0 First Vienna

Valerenga 3 - 1 Farul Constanta

Lillestrom 1 - 0 Roa

Norrkoping 1 - 0 Vaxjo

Athugasemdir
banner