Fótbolti.net ræddi við Morten Beck Guldsmed í vikunni. Hann er að renna út á samningi við FH en vonast til að hann og fjölskylda hans geti verið áfram á Íslandi. Morten hefur einnig leikið með KR og ÍA hér á landi.
Sjá einnig:
Opinn fyrir því að vera áfram á Íslandi: Óli hélt bara að ég færi til Danmerkur
Sjá einnig:
Opinn fyrir því að vera áfram á Íslandi: Óli hélt bara að ég færi til Danmerkur
Er markmiðið að spila áfram í efstu deild?
„Ég hef mikinn áhuga á að spila í efstu deild en það er nauðsynlegt fyrir mig að fara á stað þar sem ég get sýnt mína styrkleika og þar sem ég fæ traust. Þannig get ég sýnt hvað ég get. Ég er hungraður í að spila, ég spilaði ekki mjög mikið í sumar og hef æft virkilega vel. Löngunin til að spila reglulega er það sem hvetur mig áfram, að spila fótbolta er það skemmtilegasta sem ég geri," sagði Morten við Fótbolta.net.
Ertu ósáttur við þína spilamennsku í sumar?
„Nei, ég er ekki ósáttur en ég er svolítið svekktur hvernig þetta allt spilaðist á þessari leiktíð. Ég mun ekki kenna einhverjum öðrum um heldur segja við sjálfan mig að ég geti gert betur. Ég vil spila og vil sýna að ég hef ennþá eitthvað fram á að færa."
Ertu vonsvikinn að þú verður ekki áfram hjá FH?
„Já, ég er það. Það er kannski bara mín skoðun en ég kom hingað því ég vildi spila fyrir FH. Við settum upp flott plön en hlutirnir spiluðust ekki alveg eftir þeim. Fullt af hlutum gerðust á þessum tveimur og hálfa tímabili hjá FH. Svoleiðis er fótboltinn og núna er kominn tími til að horfa annað. Ég hef alltaf verið ánægður með FH-fjölskylduna, fólkið í kringum félagið. Þetta er bara fótbolti og kominn tími á eitthvað nýtt."
Þér tókst ekki að skora með ÍA í deildinni. Ert þú með einhverja skýringu hvers vegna þér tókst ekki að skora?
„Á tíma mínum hjá ÍA fannst mér ég vera mjög óheppinn. Liðið var í smá brekku þegar ég kom og hélt áfram að ganga illa eftir að ég kom. Ég fór til ÍA því ég vildi spila og þurfti að spila. Ég var búinn að fá covid og það tók mig langan tíma að komast aftur í form. Ég var ekki upp á mitt besta og liðinu gekk ekki vel. Þetta er blanda af báðu, mér og hvernig liðinu gekk sem útskýrir af hverju mér gekk ekki betur."
„Ég er mjög glaður hvernig ÍA gengur núna, stórkostlegur endasprettur og ég samgleðst Skagamenn með það."
Ertu opinn fyrir öllu á Íslandi eða horfiru eingöngu til liða á höfuðborgarsvæðinu?
„Ég er opinn fyrir öllu. Það er dýrmætt að prófa nýja hluti og upplifa staði sem þú hefur ekki farið á áður. Við erum búsett á höfuðborgarsvæðinu og það yrði alltaf fyrsti kostur ef slíkt væri í boði. Börnin gætu þá verið áfram á leikskólanum og slíkir hlutir. Við erum samt opin fyrir öllu."
Þegar Óli Jó segir að þú sért á leiðinni til Danmerkur, er hann þá bara að giska á það?
„Ég held að Óli Jó hafi bara haldið að ég væri á leiðinni til Danmerkur. Ég held hann hafi bara sagt það án þess að hugsa mikið um það. Ég held hann hafi bara verið að hugsa upphátt, gerði ráð fyrir að ég færi til Danmerkur."
Ertu búinn að vera ánægður með tímann þinn á Íslandi ef þú lítur á hann sem eina heild?
„Já, ég myndi setja þetta í tvo flokka, fótboltahliðin og svo hlutir utan fótboltans. Ég hef notið mín í fótboltanum hérna og skapað margar minningar. Ég spilaði með KR árið 2016 og hef núna spilað FH. Ég mun alltaf muna eftir mörgum góðum stundum, góð mörk og margir skemmtilegir leikir."
„Fjölskyldan hefur upplifað margar góðar stundir á Íslandi. Á Íslandi höfum við meiri tíma saman, getum gert hluti saman og tíminn hér hefur verið dýrmætur. Það hvernig fótboltinn á Íslandi virkar hefur hentað mér og fjölskyldunni mjög vel. Við erum mjög ánægð hér á Íslandi."
Ef ekkert tilboð kemur frá íslensku félagi, ertu þá með það sem varaáætlun að fara til Danmerkur?
„Ég vil vera áfram á Íslandi en ef það gengur ekki upp þá mun ég líklega fara til Danmerkur. Ég er með nokkra möguleika í Danmörku. Í Danmörku myndi ég líklega gera eitthvað meðfram því að spila fótbolta. Mig langar til að sýna að ég hafi ennþá margt fram að færa sem atvinnumaður og það er það sem ég vil láta reyna á."
„Ef ekkert kemur upp hér á Íslandi þá vil ég nota þetta tækifæri til segja að ég hef verið mjög ánægður á Íslandi og þakka þeim sem ég hef verið í samskiptum við. Tíminn á Íslandi hefur verið ótrúlega ánægjulegur," sagði Morten að lokum.
Athugasemdir