Valur er að vinna í því að styrkja leikmannahóp sinn og er Kristinn Freyr Sigurðsson, leikmaður FH, einn af þeim leikmönnum sem félagið er að vinna í.
Kristinn Freyr gekk í raðir FH fyrir síðustu leiktíð frá Val. Tímabilið var erfitt hjá FH og var liðið í fallbaráttu lengi vel. Kristinn, sem er þrítugur miðjumaður, spilaði 24 deildarleiki fyrir FH og skoraði þrjú mörk.
Í útvarpsþættinum Fótbolta.net um síðustu helgi var sagt frá því að Kristinn væri mögulega að yfirgefa FH en bæði hann og FH könnuðust ekki við það.
„Hann er einn allra besti leikmaðurinn í þessari deild. Hann er okkar leikmaður og ég á ekki von á öðru en að hann verði áfram hjá okkar á næsta ári," sagði Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður fótboltamála hjá FH. Eitthvað virðist hafa breyst í þeim efnum á síðustu dögum.
Núna hefur hins vegar Arnar Grétarsson, þjálfari Vals, staðfest það að félagið sé að reyna að fá Kristin Frey en það er ekkert klappað og klárt í þeim efnum enn sem komið er.
„Það er bara verið að vinna í þessum hlutum, en það er ekki komið svo langt," sagði Arnar við Fótbolta.net er hann var spurður að því hvort það væri klárt að Kristinn Freyr myndi koma á Hlíðarenda.
„Við höfum áhuga á Kidda, það er ekki spurning. En það er ekkert frágengið. Við höfum verið að reyna við fleiri sem hefur ekki gengið. Við höfum verið að ræða við FH en það er ekkert klappað og klárt."
Ágúst endaði í Breiðabliki
Valsmenn voru að reyna að fá Ágúst Hlynsson frá Horsens í Danmörku, en hann var á láni hjá Val á síðustu leiktíð. Valur vildi halda honum en hann fór í Breiðablik.
„Við ætluðum okkur að reyna að halda honum en það bara gekk ekki. Það er ekkert launungarmál," segir Arnar.
„Hann tekur bara þessa ákvörðun og það er ekkert við því að segja. Maður óskar honum alls hins besta. Við viljum að leikmenn vilji vera hjá okkur."
„Eins og við erum að vinna, þá er það bara næsta mál. Það eru nokkrir leikmenn farnir. Við erum búnir að fá Elfar Frey og erum að vinna í einhverjum 4-5 öðrum leikmönnum. Þetta verður að koma í ljós. Við erum ekki að stressa okkur á þessum tímapunkti, við erum bara að vanda okkur."
Samkvæmt heimildum Fótbolta.net er Aron Elí Sævarsson, bakvörður Aftureldingar, einn af þeim leikmönnum sem Valur er að reyna að fá fyrir næstu leiktíð. Hann er uppalinn í Val en hefur verið fyrirliði Aftureldingar síðustu árin.
Athugasemdir