banner
   sun 08. janúar 2023 14:18
Aksentije Milisic
Heimild: Þór/KA 
Margrét Árnadóttir til Parma (Staðfest) - „Mikill spenningur en líka stress"
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson

Margrét Árnadóttir er gengin í raðir Parma á Ítalíu frá Þór/KA en þetta staðfesti Þór/KA á heimasíðu sinni rétt í þessu.


Margrét spilaði sautján leiki með Þór/KA í Bestu deildinni síðasta sumar þar sem hún skoraði sex mörk en liðið hafnaði í sjöunda sæti deildarinnar.

Hún varð samningslaus eftir tímabilið og skoðaði möguleika erlendis. Parma varð niðurstaðan og er Margrét spennt fyrir komandi tímum.

„Ég fékk símtal að kvöldi 28. desember um að liðið vildi bjóða mér samning og næsta morgun voru drögin að samningi komin. Ég hafði þá nánast bara dag í að gefa svar og ákvað á endanum að segja já og næsta morgun var kominn samningur,“ sagði hún í samtali við Þór/KA.

„Mig hefur lengi langað að fara út í atvinnumennsku og hefur alltaf langað að prófa að flytja á meginland Evrópu. Þannig að eftir þetta tímabil ákvað ég aðeins að fara að skoða hvaða möguleika ég ætti."

Margrét hitti markmannsgoðsögnina Gianluigi Buffon á æfingasvæði liðsins en hann kom aftur til liðsins árið 2021.

Parma á bikarleik gegn Inter í dag en Margrét er ekki komin með leikheimild og mun því ekki taka þátt í þeim leik.

 „Auðvitað er mikill spenningur, en samt líka stress. Það er mjög erfitt að fara frá Akureyri, bæði Þór/KA og öllum stelpunum sem ég er að þjálfa, en einhvern tímann verður maður að taka stökkið,“  sagði Margrét.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner