Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   mán 08. maí 2017 08:00
Fótbolti.net
Spá þjálfara og fyrirliða í 1.deild kvenna: 6. sæti
Þrótturum er spáð 6. sætinu
Þrótturum er spáð 6. sætinu
Mynd: Dagný Gunnarsdóttir
Nik þjálfar Þrótt. Hér er hann ásamt erlendu leikmönnunum Sierru og Michaelu.
Nik þjálfar Þrótt. Hér er hann ásamt erlendu leikmönnunum Sierru og Michaelu.
Mynd: Heimasíða Þróttar
Fyrirliðinn Valgerður Jóhannsdóttir er að fara inn í sitt 13. tímabil
Fyrirliðinn Valgerður Jóhannsdóttir er að fara inn í sitt 13. tímabil
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Sóley María er efnilegur varnarmaður sem vert er að fylgjast með
Sóley María er efnilegur varnarmaður sem vert er að fylgjast með
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Í sumar verður leikið í þremur deildum í meistaraflokki kvenna en spilað verður í Pepsi-deild, 1. deild og 2.deild í stað þess að 1.deildinni verði skipt upp í riðla og svo spiluð úrslitakeppni eins og verið hefur undanfarin ár.

Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í 1.deildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið. Liðin fengu stig frá 1-9 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. Þróttur 79 stig
7. Tindastóll 64 stig
8. Hamrarnir 52 stig
9. Víkingur Ó. 42 stig
10. Sindri 27 stig

6. Þróttur
Lokastaða í fyrra: 4. sæti í A-riðli 1.deildar
Þróttur endaði í 4. sæti A-riðils síðastliðið sumar með 24 stig. Liðið náði naumlega að tryggja sér síðasta lausa sætið í nýrri 1. deild en góð markatala skaut þeim upp fyrir Augnablik sem endaði í 4. sæti B-riðils með jafnmörg stig og Þróttur en lakara markahlutfall.

Þjálfarinn: Nik Chamberlain er þrítugur Englendingur sem hefur spilað í neðrideildum hérlendis undanfarin ár, lengst af með Huginn. Hann þjálfaði kvennalið Fjarðabyggðar sumurin 2014 og 2015 og tók við liði Þróttar um mitt síðasta sumar. Með honum í þjálfarateyminu er Rakel Logadóttir sem er hokin af reynslu en hún á að baki fjölmarga leiki í efstu deild sem og með landsliðinu.

Styrkleikar: Varnarleikur Þróttar var góður á síðasta tímabili og liðið fékk aðeins á sig 7 mörk. Aftasta lína ætti að haldast nokkuð óbreytt frá því í fyrra og því ekki við öðru að búast en að varnarmúrinn verði jafnvel enn þéttari í ár. Liðið á kröftuga skallamenn og er öflugt í föstum leikatriðum. Þá er fín reynsla í liðinu miðað við önnur lið deildarinnar en fyrirliðinn Valgerður Jóhannsdóttir er til að mynda að fara inn í sitt 13. tímabil með Þrótti.

Veikleikar: Þróttur átti í vandræðum á heimavelli á síðasta tímabili og þarf að gera hann að meira vígi í sumar. Liðið skoraði ekki mikið af mörkum í fyrra og hefur í raun vantað afgerandi markaskorara undanfarin tímabil. Það getur reynst dýrmætt þegar á hólminn er komið ef liðinu tekst ekki að klára jafna leiki með mörkum. Liðið hefur þó fengið til sín tvo bandaríska leikmenn sem eiga að styrkja sóknarleikinn og ef þær standa undir væntingum þarf ekki að vera að sóknarleikurinn vefjist fyrir þeim röndóttu.

Lykilmenn: Agnes Þóra Árnadóttir, Diljá Ólafsdóttir og Valgerður Jóhannsdóttir

Gaman að fylgjast með: Sóley María Steinarsdóttir er efnilegur varnarmaður sem gæti blómstrað í sumar. Hún hefur spilað 15 leiki fyrir meistaraflokk Þróttar og átt sæti í U17 ára landsliði Íslands. Þá hefur 14 ára sóknarmaður að nafni Andrea Rut Bjarnadóttir verið að fá tækifæri á undirbúningstímabilinu og þar fer leikmaður sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni.

Komnar:
Hafrún Sigurðardóttir frá KFF
Katla Þormóðsdóttir frá Stjörnunni
Kristín Eva Gunnarsdóttir frá Skínanda
Vala Omarsdóttir frá KFF
Sierra Marie Lelii frá Svíþjóð
Michaela Mansfield frá Bandaríkjunum

Farnar:
Stefanía Ragnarsdóttir í Val
Margrét Ingþórsdóttir í Keflavík

Fyrstu leikir Þróttar:
13. maí Selfoss - Þróttur R.
18. maí HK/Víkingur - Þróttur R.
28. maí Þróttur R. - Víkingur Ó
Athugasemdir
banner
banner
banner