Mikið hefur verið rætt um Ísak Snæ Þorvaldsson í sumar enda hefur Ísak Snær verið virkilega góður með toppliði Breiðabliks í sumar. Ísak er markahæstur í Bestu deildinni með tólf mörk. Hann kom frá Norwich á Englandi eftir að hafa verið á láni hjá ÍA tímabilið á undan og seinni hluta tímabilsins 2020.
Fjallað hefur verið um áhuga norskra félaga á Ísaki og ræddi Fótbolti.net í dag við Ólaf Kristjánsson sem er yfirmaður fótboltamála hjá Breiðabliki. Fleiri leikmenn Breiðabliks hafa vakið áhuga erlendis frá, m.a. Jason Daði Svanþórsson en spurningarnar til Ólafs voru miðaðar út frá Ísaki.
„Menn geta aldrei leyft sér að segja að þeir vilji ekki selja"
Hvernig horfir áhugi annarra félaga á Ísaki á þessum tímapunkti? Hefur félagið mótað sér þá stefnu að vilja ekki selja leikmanninn á þessum tímapunkti?
„Menn geta aldrei leyft sér að segja að þeir vilji ekki selja. Þessi bransi gengur út á að þú ert á einhverjum stað í fæðukeðjunni og þegar menn standa sig vel, spila vel þá kemur áhugi frá einhverjum og þeir bera víurnar í menn og vilja fá þá. Svo er spurningin er það réttur tímapunktur og er það rétt verð? Er það boð sem menn eru sáttir við?" sagði Ólafur.
„Ef við tölum um Ísak þá er hann búinn að spila feikilega vel í sumar og vakið áhuga á sér. Það er ekkert skrítið að önnur félög hafi áhuga á honum og við vorum alveg undirbúnir fyrir það. Við höfum tekið á móti þeim tilboðum sem hafa komið, tekið afstöðu til þeirra og svo er það bara áfram gakk. Hann er allavega ekki farinn ennþá. Það er ekki þannig að við viljum ekki semja."
Eru einhver félög sem eru stöðugt að meta stöðuna gagnvart Breiðabliki, fá gagntilboð frá félaginu eða eitthvað slíkt?
„Nei, þetta eru ekkert stöðug samskipti. Það er ekki langt síðan glugginn í Skandinavíu opnaði, það er svolítið vont við þetta að gluggarnar skarast. Glugginn okkar hér lokaði núna í lok júlí og þá var nýbúið að opna annars staðar. Glugginn lokar 11. ágúst í Svíþjóð en annars staðar er hann opinn út ágúst."
„Segjum sem svo að við hefðum verið vissir um að það yrði erfitt fyrir okkur að halda Ísaki af því það kæmi svo gott tilboð og þar fram eftir götunum. Þá hefðum við átt mjög erfitt fyrir okkur að ná okkur í leikmann af því glugginn okkar lokaði fyrr heldur en hinir gluggarnir. Það er alltaf mest af fyrirspurnum í glugganum og það er búið að vera talsvert spurt um hann. Það hafa komið tilboð og þeim hefur verið svarað. Augljóslega, fyrst hann er ekki seldur, höfum við ekki tekið neinu tilboði ennþá."
„Við höfum metið það þannig að sú vegferð sem Breiðabliksliðið er á í deildinni - við viljum hafa liðið okkar eins og það er ef við mögulega getum þar sem við höfum engan möguleika á að gera neitt til loka mótsins. Við erum kannski opnari fyrir því að gera eitthvað þar sem sala virkjast í janúar eða eftir tímabilið."
Sjá einnig:
Ísak Snær: Óskar talar ekki um annað en að verða Íslands- og bikarmeistari
Breiðablik er í þeirri stöðu að vera berjast á þremur vígstöðvum. Liðið er í toppsæti deildarinnar með átta stigum meira en Víkingur sem á leik til góða. Breiðablik er þá komið í 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins og á seinni leikinn eftir gegn Istanbul Basaksehir í forkeppni Sambandsdeildarinnar. Líkurnar á því Breiðablik fari áfram í fjórðu umferð þar eru litlar (staðan 1-3 fyrir tyrkenska liðinu) en miði er möguleiki.
Ekki orðið neinir árekstrar
Eru einhver samskipti við leikmanninn að klára verkefnið, deildina, og svo er staðan endurmetin?
„Já, það eru alltaf samskipti við leikmanninn hvað það varðar. Þetta kemur oft til leikmanna í gegnum umboðsmenn að það eru að koma tilboð í þá. Maður ræður við umboðsmann og maður ræður við leikmanninn. Það er útskýrt fyrir honum hver afstaðan sé og Ísak veit það alveg að við höfum ekki sagt við neinu tilboði núna og við höfum bara rætt við hann að við viljum hafa hann hjá okkur - hann sé búinn að standa sig vel og skipti félagið máli eins og allir. Það hafa ekki orðið neinir árekstrar með það."
Gætu kannski skoðað það
Breiðablik á eftir að spila þrjá deildarleiki í ágúst, þar á meðal er toppbaráttuslagur við Víking í næstu umferð. Búast Blikar frekar við því að það muni koma tilboð fyrir lok gluggans frá Norðurlöndunum sem verður erfitt að hafna?
„Ég bara veit það ekki, á erfitt með að segja til um það. Áhuginn sem hefur verið á honum hefur verið töluverður og tilboðin hafa augljóslega ekki passað okkur. Það getur verið að félögin hafa viljað fá hann strax og okkur hefur ekki fundist það fýsilegt. Það hafa ekki mörg félög sagt við okkur að þau vilji kaupa hann núna en hann kæmi til þeirra í janúar. Þau gætu kannski skoðað það - ég veit það ekki."
Voðalega erfitt að gera öllum til geðs
Árið 2019 var Breiðablik einnig í toppbaráttu, ekki í efsta sæti eins og núna heldur nokkrum stigum á eftir KR þegar liðið seldi þá Aron Bjarnason og Kolbein Þórðarson frá sér. Það vakti athygli á sínum tíma að lið í toppbaráttu væri að selja frá sér lykilmenn.
Ólafur var þá ekki starfsmaður Breiðabliks en var samt spurður hvort að það hafi núna verið einhver samtöl innan Breiðabliks að það yrði minna um sölur á miðju sumri þegar liðið er í séns á Íslandsmeistaratitli.
„Nei, það hefur svo sem ekkert verið rætt strategískt um að vilja ekki selja á miðju sumri. Ef það kemur lið og býður 2 milljónir evra - nú kasta ég einhverri tölu fram - þá er voðalega erfitt að segja nei við því þar sem það eru ekki tölur sem við erum vanir að fá."
„En ef þú metur hagsmunina sem eru í því að hafa leikmannahópinn eins og hann er og hagnaðinn í því að vinna deildina. Það eru ákveðnir fjárhagslegir hagsmunir í því ásamt öllu öðru. Við höfum bara metið það þannig að þau tilboð sem hafa komið, þó að þau hafi verið góð, þá passi það okkur betur að selja hann ekki."
„Við getum sett þetta þannig upp að ef glugginn hér væri opinn hérna eins og gluggarnir erlendis þá væri hægt að gera einhverjar ráðstafanir. En núna, ef Ísak færi núna, þá gætum við ekki gert neitt í að fá leikmann inn. Ofan á það væri erfitt að fá leikmann sem passar beint í liðið eins og Ísak hefur gert vel í sumar. Það er fullt af hlutum sem þarf að kíkja á og meta."
„Það er voðalega erfitt þegar einhverjir segja að það sé skrítið að það sé ekki búið að selja og svo á öðrum tímapunkti er sagt að það sé skrítið að þeir skuli vera selja þegar þeir eru í toppbaráttu. Það er voðalega erfitt að gera öllum til geðs."
„Mitt hlutverk er að hugsa um hagsmuni Breiðabliks, hvað sé best fyrir Breiðablik. Auðvitað tek ég samtalið við leikmanninn og Ísak veit það alveg að það er áhugi frá öðrum liðum. Ísak veit það alveg að við erum ekki þannig að við segjum: „Við viljum aldrei selja þig". Hann kemur frá Norwich, er búinn að eiga gott tímabil og Óskar og Dóri eru búnir, sem þjálfarar, búnir að gera frábæra hluti með hann og hinir í liðinu búnir að ýta undir að hann hafi blómstrað. Þetta eru svo margir þættir sem þú þarft að kíkja á."
Metnað til þess að verða betri og til þess að fara út
Hvernig eru samskiptin við Ísak, sýnir hann þessu fullan skilning?
„Já, hann gerir það alveg. Hann hefur metnað til þess að verða betri í fótbolta og hann hefur líka metnað til þess að fara út. Þegar einhver áhugi hefur komið hefur hann verið upplýstur um það eins og mönnum ber að gera. Ég hef útskýrt afstöðu okkar til þess og hann hefur alveg sýnt því skilning. Það hefur ekki verið neitt vesen."
„Algjör óþarfi að fara í panikk og hlaupa af stað ef þetta eru bara sögusagnir"
Að öðru, síðustu vikur hefur verið fjallað um mögulegan áhuga Norrköping á að ráða Óskar Hrafn Þorvaldsson sem þjálfara félagsins. Óskar er þjálfari Breiðabliks. Tókstu spjallið við Óskar?
„Nei, ég gerði það nú ekki. Ég treysti því að ef það hefði farið lengra að hann hefði komið til mín og sagt mér að hann hefði áhuga á því."
„Það er algjör óþarfi að fara í panikk og hlaupa af stað ef þetta eru bara sögusagnir. Það er sama með tilboð í leikmenn. Við hlaupum ekki af stað ef það eru bara gróusögur um tilboð. Ef það er eitthvað konkret þá tökum við bara afstöðu til þess. Það hefur ekki farið þangað að við Óskar höfum þurft að ræða að hann sé að fara."
„Ég veit að Óskar væri heiðarlegur með það ef svoleiðis færi eitthvað lengra. Ég hef sjálfur verið í þeirri stöðu og þá fer maður bara og talar við félagið, segir hvernig staðan er og spilar bara með opið kort. Þá er alltaf hægt að finna út úr því á einhvern hátt."
„Ég er alveg rólegur varðandi þetta þar sem ég las að Norrköping er búið að ráða þjálfara," sagði Ólafur léttur að lokum.
Sjá einnig:
Telur að Ísak verði ekki seldur - „Með honum eru líkurnar 95 prósent" (2. ágúst)
Rosenborg ætlar að kaupa Ísak Snæ (29. júlí)
Viking í Noregi að horfa til Ísaks og Nökkva (27. júlí)
„Glugginn í Evrópu og Skandinavíu lokast því miður ekki eftir viku" (20. júlí)
Hvernig Ísak Snær varð óvænt langbestur í deildinni (21. júní)
Athugasemdir