Patrice Evra, fyrrum leikmaður Manchester United, hefur lagt það til að Paul Pogba snúi aftur til Frakklands þegar hann mætir til baka úr leikbanni.
Pogba féll á lyfjaprófi í fyrra og var dæmdur í fjögurra ára bann. Það bann var stytt í 18 mánuði á dögunum og getur hann hafið æfingar aftur í janúar. Hann má svo byrja að spila í mars.
Pogba er 31 árs gamall og hefur ekki spilað keppnisfótbolta síðan í september 2023, en hann missti af miklu fyrir þann tíma vegna þrálátra meiðsla.
Pogba er núna samningsbundinn Juventus en það er talið líklegt að þeim samningi verði rift í janúar. Pogba er ekki hluti af plönum félagsins og má fara annað.
Evra er góður vinur Pogba en hann telur að það séu 99 prósent líkur á því að miðjumaðurinn spili ekki aftur fyrir Juventus. Hann ætlar að hjálpa honum að finna nýtt félag.
„Ég held að það séu 99 prósent líkur á því að við sjáum Paul ekki aftur í treyju Juventus," sagði Evra sem spilaði líka fyrir ítalska félagið á sínum tíma. „Hann þarf að snúa blaðsíðunni við."
„Ég ætla að tala við Mehdi (Benatia, yfirmann fótboltamála hjá Marseille) og biðja hann um að hringja í Paul. Dyrnar þar eru opnar fyrir hann."
Marseille hefur sýnt að það er tilbúið að gefa mönnum annað tækifæri en félagið keypti Mason Greenwood frá Manchester United í sumar. Greenwood átti ekki afturkvæmt hjá United eftir að kærasta hans sakaði hann um ofbeldi og birti til sönnunar myndir af áverkum sínum.
Pogba þótti á sínum tíma einn af efnilegustu og bestu miðjumönnum heims. Hann var lykilmaður í sterku liði Juventus þar sem hann vann ítölsku deildina fjögur ár í röð en átti erfitt uppdráttar eftir félagaskipti til Manchester United. Hann fór svo aftur til Juventus 2022 en fann ekki taktinn þar á nýjan leik áður en hann var dæmdur í leikbann.
Athugasemdir