Jack Grealish, kantmaður Manchester City og enska landsliðsins, er svekktur með að hafa ekki verið valinn í enska landsliðshópinn fyrir EM síðasta sumar.
England mætti Spáni í úrslitaleik Evrópumótsins en tapaði þar öðrum úrslitaleiknum í röð, eftir að hafa einnig tapað gegn Ítalíu í úrslitaleik EM 2020.
Gareth Southgate sagði upp starfi sínu sem landsliðsþjálfari í kjölfarið og tók Lee Carsley við til bráðabirgða, en hann er talinn líklegur til að fá stöðuna eftir góða byrjun. Grealish hefur byrjað báða leikina undir stjórn Carsley og er ánægður undir nýjum þjálfara.
„Ég ætla að vera heiðarlegur. Ég var alls ekki sammála ákvörðuninni um að skilja mig eftir í sumar. Ég átti skilið að vera í landsliðshópnum. Aðrir enskir leikmenn í sömu stöðu og ég skora kannski meira en ég get gefið liðinu aðra hluti," sagði Grealish við BBC í dag.
„Ég veit að ég átti ekki mitt besta tímabil á síðustu leiktíð en ég bý yfir mikilli reynslu sem hefði verið mikilvæg á EM. Ég hef unnið mikið af titlum á ferlinum og ef þú spyrð mig þá átti ég skilið að fara á EM. Ég vil þakka Lee Carsley fyrir að treysta mér til að koma aftur inn í liðið.
„Við eigum í frábærum samskiptum, mér líður eins og mér hefur liðið með öðrum þjálfurum sem ég hef haft á ferlinum sem sýndu mér traust. Þetta traust hjálpar mér mjög mikið og ég get ekki talað nógu vel um Lee, það hefur verið hreinn unaður að starfa með honum frá því að hann tók við."
Grealish var dýrasti breski leikmaður sögunnar þegar Man City keypti hann frá Aston Villa fyrir 100 milljónir punda í ágúst 2021. Hann er nýbakaður faðir og hlakkar til að reyna að ná sögulegum árangri með enska landsliðinu og Manchester City á komandi misserum.
Grealish er 29 ára gamall og með tæp þrjú ár eftir af samningi við Man City.
Athugasemdir