Arsenal leggur fram tilboð - Schick til Englands - Emi á útleið og fer Inzaghi til Sádi?
   fös 08. desember 2023 20:37
Brynjar Ingi Erluson
Postecoglou mikill aðdáandi Football Manager - „Hélt ég fengi styttu en var síðan rekinn“
Draumur ástralska stjórans Ange Postecoglou rættist í sumar er hann fékk tækifærið til að þjálfa í ensku úrvalsdeildinni, en hann var vel undirbúinn fyrir stóra tækifærið enda mikill aðdáandi Football Manager-leikjanna.

Football Manager er einn vinsælasti tölvuleikur heims og af ástæðu, en þar getur spilarinn tekið sér stöðu knattspyrnustjóra og stýrt öllum helstu aðgerðum þ.á.m. keypt og selt leikmenn, fundið undrabörn, þróað leikmenn, ráðið þjálfarateymið og rætt við umboðsmenn.

Postecoglou er vel kunnugur leiknum. Þar byrjaði hann feril sinn, en hann elskaði að stýra liðum í neðri deildunum á Englandi og koma þeim upp deildir.

„Ég byrjaði að spila þetta stuttu eftir að leikurinn kom út. Á þeim tíma var ég að vinna með ástralska landsliðinu og þar er ágætis frítími á milli. Í Football Manager gat maður gert hluti sem raunveruleikinn býður ekki upp á.“

„Ég elskaði að taka við litlu liði og fara með það eins langt og ég gat. Mitt uppáhalds 'save' var með Southend United. Ástæðan fyrir að ég valdi það lið er af því það er svona líkast South Melbourne, félaginu sem ég ólst upp hjá og spilaði með.“

„Mér tókst að fara alla leið í Meistaradeildinni en mitt besta augnablik varð líka það versta því sex mánuðum síðar var ég rekinn. Ég var að búast við styttu, en svona er þetta,“
sagði Postecoglou.

Ástralinn hafði gaman af því að leita að undrabörnum í leiknum og sótti meðal annars Freddy Adu, sem eitt sinn var mesta vonarstjarna Bandaríkjanna og heimsins. Hægt er að sjá Ange tala um FM í spilaranum hér fyrir neðan.


Athugasemdir
banner