Ange Postecoglou, stjóri Tottenham Hotspur, segist ekki ætla að breyta leikstíl liðsins þrátt fyrir áköll um það en þetta sagði hann eftir 4-3 tapið gegn Chelsea í dag.
Ástralinn hefur verið gagnrýndur fyrir leikstíl liðsins og hvernig hann heldur áfram að spila sóknarsinnað jafnvel þó liðið sé komið í góða forystu.
Tottenham komst í tveggja marka forystu í daga en hélt áfram að reyna að ganga frá Chelsea í stað þess að leggjast aðeins aftur og beita skyndisóknum.
Ange segist ekki ætla að breyta leikstílnum.
„Það var nógu gott til að koma okkur í forystu þannig ég sé ekki af hverju við ættum að breyta nálgun okkar. Þetta var leikur stórra augnablika. Ef við skorum í 2-2 og komumst í 3-2 þá er pressan á þeim og þá verða þeir að opna sig eins og við gerðum þegar við fengum á okkur mark. En eins og ég sagði þá erum við vonsviknir með að leyfa þeim að gefa þeim forskot sem var auðvitað sjálfskaparvíti,“ Ange við BBC.
Hann var ekki alveg nógu sáttur við vítin sem liðið fékk á sig og að leikmenn hafi verið að reyna of mikið að gera réttu hlutina.
„Af okkar hálfu voru vítaspyrnurnar sem þeir fengu slakar. Við þurftum ekki að fara í þessar tæklingar og var erfitt fyrir okkur að klóra okkur til baka eftir það.“
„Stundum er það þannig að þegar þú ert í þessari stöðu sem við erum í þá kemur svo mikil örvænting um að gera réttu hlutina. Maður þarf aðeins rólegri nálgun. Strákarnir vilja gera það rétta en því miður kostaði það okkur.“
Cristian Romero, varnarmaður Tottenham, meiddist í fyrri hálfleik og þá fór hollenski miðvörðurinn Micky van de Ven af velli seint í leiknum. Ange uppfærði stöðuna á þeim.
„Hann fékk högg á tánna og í dag var það lærisvöðvinn, þannig þetta var aðeins öðruvísi. Þetta varð meiri áskorun eftir að Romero meiddist, því við héldum að hann myndi geta spilað 90 mínútu, en vonandi verður Micky í lagi.“
Eina í stöðunni hjá Tottenham er að halda áfram og reyna að ná í úrslit.
„Það er ekkert annað í stöðunni en að halda áfram. Það er engin önnur leið sem við getum farið og þurfum við bara að mæta í þessa leiki. Mestu vonbrigðin voru þau að við sýndum hvernig lið við getum orðið, því Chelsea er topplið og við vorum betri en þeir. Því miður er það bara þannig að við erum að glíma við margar raskanir. Við verðum samt að halda ótrauðir áfram.“
„Við verðum að sjá hvernig heilsan er á hópnum. Við erum svolítið þunnskipaðir og erum með nokkur langtímameiðsli. Það eru nokkrir stórir leikir á dagskrá frá deginum í dag og fram í janúar,“ sagði hann í lokin.
Athugasemdir