Hansi Flick, þjálfari Barcelona, var steinhissa á rauða spjaldinu sem hann fékk í 2-2 jafntefli liðsins gegn Real Betis í Seville-borg í gær.
Flick var rekinn af velli eftir að Frenkie de Jong var dæmdur brotlegur í teig Börsunga.
Vítaspyrnan þótti umdeild á vellinum en þegar endursýning er skoðuð steig De Jong á hælinn á leikmanni Betis og dómurinn því réttur.
Þýski þjálfarinn skildi samt ekkert í því að hann hafi fengið að líta rauða spjaldið fyrir viðbrögðin á hliðarlínunni.
„Ég skil ekki rauða spjaldið sem ég fékk. Ég sagði ekkert við einn né neinn. Ég brást við og sagði eitthvað við sjálfan mig. Þetta hefur aldrei gerst fyrir mig áður,“ sagði Flick.
Hann var þá ekkert sérstaklega ánægður með spilamennsku sinna manna.
„Við spiluðum illa frá byrjun leiks. Þetta var alls ekki góður leikur, en við erum ungt lið og þurfum að bæta okkur mikið. Við þurfum að vera sterkari og sérstaklega þegar við spilum á útivelli. Við erum með gæðin, en við þurfum að sýna þau í hverjum einasta leik,“ sagði hann í lokin.
Barcelona er aðeins með tveggja stiga forystu á erkifjendur sína í Real Madrid en Börsungar hafa unnið einn leik af síðustu fimm í deildinni.
Athugasemdir