Staðan var 1-0 fyrir Galatasaray gegn Adana Demirspor í efstu deild tyrkneska boltans í dag þegar gestirnir í liði Adana ákváðu að ganga af velli.
Álvaro Morata, sem leikur fyrir Galatasaray á láni frá Milan, skoraði fyrsta mark leiksins úr vítaspyrnu á 12. mínútu, sem Dries Mertens fiskaði, en 20 mínútum síðar gengu leikmenn Adana af velli.
Það var á 34. mínútu sem þjálfari Adana Demirspor kallaði leikmenn að hliðarlínunni og yfirgáfu þeir völlinn.
Leikmenn Galatasaray voru gríðarlega hissa þegar atvikið átti sér stað en Metin Korkmaz, fyrrum forseti Adana, staðfesti eftir atvikið að leikmenn hafa gert þetta í mótmælaskyni við vítaspyrnuna sem Morata skoraði úr.
José Mourinho, þjálfari Fenerbahce, er meðal fjölda fólks sem telur tyrkneska boltann vera spilltann þar sem Galatasaray ræður ríkjum og fær ýmsa vafasama dóma með sér. Vítaspyrnudómurinn í dag er einn slíkur, þar sem Mertens féll til jarðar innan vítateigs eftir minniháttar snertingu.
„Þetta eru mótmæli gegn dómarasambandinu, ekki gegn Galatasaray," sagði Korkmaz. „Murat (Sancak, núverandi forseti Adana Demirspor) mun veita ykkur frekari upplýsingar síðar."
Adana Demirspor er botnlið tyrknesku deildarinnar þar sem liðið er aðeins með 5 stig eftir 21 umferð. Liðið fékk þrjú mínusstig á tímabilinu og væri því með 8 stig ef ekki fyrir refsinguna. Það þykir þó ljóst að Adana mun falla niður um deild í ár.
Galatasaray trónir aftur á móti á toppi deildarinnar með 57 stig, þremur stigum fyrir ofan Fenerbahce og með leikinn gegn Adana til góða. Allar líkur eru á því að Galatasaray verði dæmdur 3-0 sigur og því munu ríkjandi Tyrklandsmeistararnir vera komnir með sex stiga forystu.
Fenerbahce sigraði leik sinn gegn Alanyaspor í dag með tveimur mörkum gegn engu. Sebastian Szymanski og Anderson Talisca skoruðu mörkin.
Alanyaspor 0 - 2 Fenerbahce
0-1 Sebastian Szymanski ('22)
0-2 Anderson Talisca ('42)
Galatasaray 1 - 0 Adana Demirspor
1-0 Alvaro Morata ('12, víti)
Athugasemdir