Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 09. mars 2023 09:00
Ívan Guðjón Baldursson
Mancini glímir við alvarleg vandamál í sóknarlínunni
Ciro Immobile er meiddur.
Ciro Immobile er meiddur.
Mynd: EPA
Willy Gnonto er eini framherji ítalska landsliðsins sem hefur átt fastasæti í byrjunarliði í vetur.
Willy Gnonto er eini framherji ítalska landsliðsins sem hefur átt fastasæti í byrjunarliði í vetur.
Mynd: EPA
Mancini ráðlagði Zaniolo að skipta yfir til Tyrklands.
Mancini ráðlagði Zaniolo að skipta yfir til Tyrklands.
Mynd: Getty Images

Roberto Mancini, landsliðsþjálfari Ítalíu, óttast um framtíðarhorfur landsliðsins þegar kemur að sóknarmönnum.


Ítalska þjóðin varð fyrir miklum vonbrigðum þegar landsliðinu, sem vann EM 2020, mistókst að tryggja sér þátttökurétt á HM í Katar 2022. Ítalíu mistókst að leggja Sviss og N-Makedóníu að velli þrátt fyrir talsverða yfirburði og fékk því ekki farmiða til Katar. 

Ítalía er þó komin í úrslitakeppni Þjóðadeildarinnar og getur tryggt sér sæti á næsta Evrópumóti með sigri þar. Ítalía á mikilvægan leik við England 23. mars.

„Enska landsliðið er meðal þeirra sterkustu í heimi. Þeir duttu út gegn Frakklandi á HM og komust alla leið í úrslitaleikinn á EM. Við erum að glíma við alvarleg vandamál í sóknarlínunni þar sem Immobile er meiddur og Raspadori tæpur. Það er mikið af spurningamerkjum og nánast allir sóknarmennirnir okkar hafa fengið lítinn spiltíma með sínum félagsliðum undanfarna mánuði," sagði Mancini.

„Það er ekki einn framherji landsliðsins sem hefur verið með fastasæti í byrjunarliði í vetur, að undanskildum (Wilfried) Gnonto sem er ekki hreinræktaður sóknarmaður, heldur meiri kantmaður. Scamacca er að ná sér eftir erfið meiðsli og Belotti fær lítinn spiltíma. Við erum ekki í vandræðum með varnarlínuna eða á miðjunni. Vandamálin eru öll í sóknarlínunni og það er ekki því það vantar hæfileikana, þeir bara fá ekki nægan spiltíma."

Líklegt er að Mancini muni notast við Moise Kean og Nicoló Zaniolo í landsleiknum gegn Englandi, en Zaniolo var næstum genginn til liðs við Bournemouth í janúar. Þau skipti gengu að lokum ekki upp og endaði sóknartengiliðurinn hjá Galatasaray í Tyrklandi.

„Zaniolo spurði mig um ráðleggingu og ég sagði honum að fara til Galatasaray til að fá spiltíma. Ég vona að hann fái nægan spiltíma þar því hann er mjög mikilvægur leikmaður fyrir landsliðið. Miðað við hvernig staðan var orðin þá voru þessi félagsskipti til Tyrklands eini möguleikinn í stöðunni."

Mancini sagði svo að það væri ekki útilokað að Lorenzo Insigne og Federico Bernardeschi, leikmenn Toronto FC í MLS deildinni, gætu átt afturkvæmt í landsliðið. Þá talaði hann vel um Lorenzo Pellegrini, sóknarsinnaðan miðjumann Roma, og Gianluigi Donnarumma sem hefur átt erfitt uppdráttar hjá PSG.

Donnarumma er enn með byrjunarliðssætið í ítalska landsliðinu þrátt fyrir mikinn uppgang markvarða á borð við Alex Meret, Guglielmo Vicario og Ivan Provedel í ítölsku deildinni.

Ástandið í sóknarlínu Ítalíu er svo slæmt að fyrir utan Bernardeschi og Insigne hefur Andrea nokkur Compagno verið nefndur til sögunnar. Sá hefur verið iðinn við markaskorun í efstu deild rúmenska boltans undanfarin ár.


Athugasemdir
banner
banner
banner