Haaland, Toney, Gomes, Diomande, Gyokeres, Southgate, O'Neil, De Zerbi og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fim 09. mars 2023 12:56
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Siggi Raggi: Ekki ákjósanlegt að þurfa finna sjö byrjunarliðsmenn
,,Fólk var að kalla eftir meiri upplýsingum''
Mikilvægt að við séum ekki að gera óraunhæfar kröfur eða væntingar til liðsins byggðar á árangri liðsins í fyrra
Mikilvægt að við séum ekki að gera óraunhæfar kröfur eða væntingar til liðsins byggðar á árangri liðsins í fyrra
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jordan Smylie gæti verið með rifinn liðþófa.
Jordan Smylie gæti verið með rifinn liðþófa.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Axel Ingi Jóhannesson er einn af þeim sem hafa spilað mikið í vetur.
Axel Ingi Jóhannesson er einn af þeim sem hafa spilað mikið í vetur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gunnlaugur Fannar kom frá Kórdrengjum í vetur. Siggi Raggi talar um að fá inn 1-2 leikmenn í viðbót í varnarlínuna.
Gunnlaugur Fannar kom frá Kórdrengjum í vetur. Siggi Raggi talar um að fá inn 1-2 leikmenn í viðbót í varnarlínuna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhann var á láni hjá Víði í fyrra en hefur skorað nokkur mörk fyrir Keflavík í vetur.
Jóhann var á láni hjá Víði í fyrra en hefur skorað nokkur mörk fyrir Keflavík í vetur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Miðjumaðurinn Sami Kamel kom til Keflavíkur í síðasta mánuði og hefur skorað tvö mörk í tveimur leikjum.
Miðjumaðurinn Sami Kamel kom til Keflavíkur í síðasta mánuði og hefur skorað tvö mörk í tveimur leikjum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markvörðurinn Mathias Rosenörn.
Markvörðurinn Mathias Rosenörn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mesti tíminn í vetur hefur farið í að finna leikmenn sem passa inn í liðið og 'budget-ið'.
Mesti tíminn í vetur hefur farið í að finna leikmenn sem passa inn í liðið og 'budget-ið'.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Keflavík hefur undanfarna mánuði verið að þétta raðirnar fyrir komandi átök í Bestu deildinni eftir að talsvert þungt var yfir skömmu eftir mót þegar menn voru að tínast í burtu frá félaginu. Alls eru níu leikmenn sem voru í stórum hlutverkum í fyrra farnir á braut og sex komnir í staðinn.

Komnir
Daníel Gylfason frá Kórdrengjum
Gunnlaugur Fannar Guðmundsson frá Kórdrengjum
Jordan Smylie frá Ástralíu
Mathias Rosenörn frá KÍ Klaksvík
Sami Kamel frá Noregi
Viktor Andri Hafþórsson frá Fjölni

Farnir
Adam Ægir Pálsson í Val (var á láni frá Víkingi)
Dani Hatakka í FH
Ingimundur Aron Guðnason hættur
Joey Gibbs í Stjörnuna
Kian Williams til Kanada
Patrik Johannesen í Breiðablik
Rúnar Þór Sigurgeirsson til Öster
Sindri Kristinn Ólafsson til FH
Adam Árni Róbertsson í Þrótt Vogum

„Okkur hefur gengið ágætlega í vetur, við höfum unnið fimm leiki, tvö jafntefli og tvö töp í níu leikjum. Við höfum unnið Breiðablik, KA, Fjölni, Þrótt og ÍBV. Jafnteflin eru gegn Stjörnunni og Fylki og töpin eru gegn Þór og FH - gegn Þór vantaði gríðarlega marga í liðið okkar," sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson sem er þjálfari Keflavíkur.

„Nýju mennirnir hafa komið vel inn, hafa strax fallið vel inn í þetta. Sami og Jordan hafa báðir verið að leggja upp og skora mörk. Markmaðurinn okkar, Rosenörn, hefur staðið sig vel, vel spilandi markmaður og reynslumikill. Við höfum misst dálítið úr varnarlínunni okkar og fengið fullmikið af mörkum á okkur í vetur, fengum á okkur tólf og skoruðum tólf í Lengjubikarnum."

„Við þurfum að vinna í því að fá okkur færri mörk. Við misstum Dani og Rúnar Þór og fengum Gunnlaug Fannar í staðinn. Það eru tveir leikmenn að fara í skóla í haust: Ásgeir Páll Magnússon og Guðjón Pétur Stefánsson. Við erum að horfa eftir því að styrkja varnarlínuna aðeins, við erum í viðræðum við tvo leikmenn um að koma til okkar."

„Við erum kannski líka svolítið fáliðaðir í framherjastöðunni, Jordan Smylie er núna að fara í skoðun, gæti verið með rifinn liðþófa."

„Ég tel okkur vera með sterka miðju og marga leikmenn sem við ætlumst til að stígi upp. Ég held að þetta geti verið spennandi ár fyrir Dag Inga Valsson og Edon Osmani. Þetta eru strákar sem hafa sýnt okkur að geta gert góða hluti þegar þeir eru heilir. Þeir hafa lengi verið meiddir, við væntum mikils af þeim."

„Svo fengum við Viktor Andra frá Fjölni sem hefur misst af öllu undirbúningstímabilinu. Þannig það eru óvissuþættir líka, búið að vera töluvert af langtímameiðslum,"
sagði Siggi Raggi.

Þyrfti að finna pening ef styrkja á liðið frekar
Ef þessir tveir sem félagið er núna í viðræðum við koma til félagsins, og Jordan Smylie sleppur við alvarleg meiðsli, má þá segja að hópurinn sé þá fullmótaður?

„Ég held að hópurinn sé alltaf opinn á meðan félagsskiptagluggin er opinn ef það koma upp einhver spennandi tækifæri þar sem við sjáum fram á að styrkja okkur og kosta ekki of mikið. Svo eru líka önnur lið að spyrja um leikmenn hjá okkur. Það getur verið að við sendum leikmenn frá okkur á lán, þá kannski losnar eitthvað um að taka mann inn í staðinn. Þannig við útilokum ekkert, sérstaklega ekki á meðan óvissa er með Jordan. Ég held það sé þannig hjá öllum liðum, að ef eitthvað spennandi kemur upp, sem hægt er að láta ganga upp fjárhagslega, þá segjum við aldrei nei við því. Það er ekki til mikið af peningum, það þyrfti þá að búa þá einhvern veginn til ef það á að styrkja okkur meira."

Ekki ákjósanlegt að þurfa að finna sjö byrjunarliðsmenn
Eins og fram kemur í inngangi greinar var þungt yfir Keflavík utan frá séð fyrstu tvo mánuði eftir mótið 2022. Hvernig finnst Sigga það hafa tekist að snúa hlutunum við í eitthvað jákvæðara síðustu 2-3 mánuði?

„Það var auðvitað neikvætt að við misstum mjög marga leikmenn frá okkur eftir tímabil, suma seldum við en margir fóru frítt. Við vorum um áramótin að klára að gera upp árið á þokkalegan hátt. Ég veit ekki nákvæmlega hvar þetta endaði, hef ekki séð hvernig ársreikningurinn kom út fyrir síðasta ár, en mér skilst að við höfum náð að loka árinu ágætlega. Það er auðvitað ekki ákjósanlegt fyrir þjálfara að þurfa finna 7 byrjunarliðsmenn fyrir þá sem hafa horfið á braut, 9 af 13-14 bestu leikmönnum liðsins hurfu á braut. Við erum í 'rebuilding' fasa að reyna búa til nýtt lið."

„Við erum að fara í æfingaferð á föstudaginn sem verður gott fyrir okkur til að þjappa okkur saman, kynnast vel og eyða góðri viku saman í æfingar við góðar aðstæður. Það er mikilvægt félagslega, því við erum með nýtt lið, og það mun sennilega taka smá tíma fyrir okkur að stilla saman strengi. Mér finnst undirbúningstímabilið til þessa hafa verið mjög jákvætt fyrir okkur, ungir strákar fengu mikið að spila og stigu sumir upp."

„Sindri Þór er búinn að skora fimm mörk í nýrri stöðu sem hægri kantmaður, Jóhann Þór Arnarsson sem var hjá Víði á láni hefur komið vel inn og skorað þrjú mörk og Axel, sem fæddur er 2004, er búinn að spila alla leikina í hægri bakverði og standa sig vel. Ungir leikmenn eru að fá mikilvæga reynslu og ég held að við njótum góðs af því í sumar. En það er annað að spila undirbúningsleiki og að fara svo í alvöruna, við vitum það."

„Við erum að leitast eftir því að styrkja liðið og vonandi koma leikmenn til liðs við okkur á Spáni, það verða einn eða tveir reikna ég með. Við erum að reyna loka þeim samningum og þeir myndu styrkja okkur mikið ef það tekst."


Hálfótrúlegt hversu marga vantaði
Tapleikurinn gegn Þór stingur svolítið í augun þegar horft er í úrslit vetrarins. Þór, sem er í Lengjudeildinni, vann 4-1 sigur í Boganum fyrir mánuði síðan.

„Úrslitin, eftir að hafa misst svona marga leikmenn, hafa verið góð í vetur. Við getum verið stoltir af úrslitunum og frammistaðan líka oft á tíðum hefur verið mjög góð. En það var þessi eini leikur, á móti Þór, sem fór 4-1. Ef leikmannahópurinn í þeim leik er skoðaður, þá held ég að okkur hafi vantað fjórtán leikmenn sem væru venjulega í átján manna hóp. Það hitti þannig á að það voru mikið um meiðsli, veikindi og þrír leikmenn erlendis. Það var hálfótrúlegt hversu marga vantaði í þann leik. En Þórsarar stóðu sig vel og áttu sigurinn fyllilega skilið. Þetta var leikurinn sem var öðruvísi en allir hinir í vetur, heilt yfir höfum við staðið okkur mjög vel og ég held að við höfum staðið okkur mjög vel."

Ekki allir í toppstandi í byrjun móts
Mánuður er í Íslandsmót, hvernig metur Siggi Raggi möguleika Keflavíkur í sumar? Hvað er það sem Keflvíkingar vilja gera?

„Þegar þú missir svona marga leikmenn, og nýju mennirnir eru enn að koma inn og mánuður er í mót, þá gefur það auga leið að við þurfum tíma til að stilla saman strengi og koma mönnum í form. Liðið mun kannski ekki vera í toppstandi strax í byrjun móts - einhverjir leikmenn munu kannski verða það - en ekki allir."

„Til að byrja með er mikilvægt fyrir liðið að stabílisera sig og halda sér uppi í efstu deild. Það er fyrsta markmiðið, ef við sjáum að við getum ráðið við það þá munum við setja markið hærra. Ég held að það sé mikilvægt að við séum ekki að gera óraunhæfar kröfur eða væntingar til liðsins byggðar á árangri liðsins í fyrra. Þetta er allt annað lið, nýtt lið, yngra og reynsluminna. Það eru miklu færri sem hafa spilað marga leiki í efstu deild. Ég held að við ættum að hafa með fæturna á jörðinni varðandi það og sjá hvernig gengur - hvar liðið okkar stendur - þegar við erum komnir svolítið inn í mótið."


Svaraði ákalli stuðningsmanna á Facebook
Í janúar var þjálfarinn duglegur að láta stuðningsmenn vita í stuðningsmannahóp á Facebook hvað væri í gangi hjá liðinu, sagði þeim hvaða leikmenn væru að spila í undirbúningsmótunum og almennt hvað væri að frétta hjá Keflavíkurliðinu. Færslur hans fengu mjög jákvæð viðbrögð og stuðningsmenn sýnilega ánægðir að sjá fréttir af liðinu.

„Ég vissi ekki af þessari síðu, datt þar inn og sá að fólk var að kalla eftir meiri upplýsingum. Við sem félag þurfum að gera það betur að koma upplýsingum á framfæri til stuðningsmanna. Ég setti inn nokkrar fréttir um gengið á undirbúningstímabilinu, hverjir hefðu verið að spila og skora o.s.frv.. Það voru margir stuðningsmenn sem voru ánægðir með það. Vonandi fáum við einhvern í það að setja inn upplýsingar og annað, en auðvitað viljum við líka fá stuðningsmennina á völlinn. Það er mikilvægt að leikmenn finni fyrir stuðningi, að þetta sé ekki bara bundið við síðu á Facebook."

„Markmiðið var að upplýsa stuðningsmenn um hvað væri í gangi, ef það er ekki öflug fréttaveita þá verður til alls konar misskilningur og fólk heldur að það sé eitthvað annað í gangi heldur en það sem er. Það er gott að ná tengslum við stuðningsmenn."

„Fólk var ánægt með þetta. Mesti tíminn í vetur hefur farið í að finna leikmenn sem passa inn í liðið og 'budget-ið'. Þá gefst kannski minni tími í svona flott verkefni sem stuðningsmenn eru ánægðir með. Vonandi náum við að halda þessu áfram að einhverju leyti, fáum kannski sjálfboðaliða í þetta sem hefur áhuga á þessu og getur sinnt þessu,"
sagði Siggi Raggi að lokum.

Sjá einnig:
„Sum félög að kaupa menn á margar milljónir og við erum ekki þar"
Blæs á sögusagnir um fjárhagsörðugleika í Keflavík
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner