Zirkzee, Yoro og Branthwaite orðaðir við Man Utd - Arsenal mun framkvæma læknisfræðilegt mat á Neto
   sun 09. júní 2024 18:43
Brynjar Ingi Erluson
Mjólkurbikarinn: Valur í undanúrslit eftir rosalega dramatík
Valur er komið í undanúrslit
Valur er komið í undanúrslit
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Ásgeir Páll gerði fyrsta mark Keflvíkinga
Ásgeir Páll gerði fyrsta mark Keflvíkinga
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gylfi Þór Sigurðsson snéri aftur á völlinn
Gylfi Þór Sigurðsson snéri aftur á völlinn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Keflavík 3 - 3 Valur (3-5 eftir vítakeppni)
0-1 Patrick Pedersen ('33 )
1-1 Ásgeir Páll Magnússon ('38 )
2-1 Dagur Ingi Valsson ('57 )
2-2 Gunnlaugur Fannar Guðmundsson ('68 , sjálfsmark)
2-3 Jónatan Ingi Jónsson ('98 )
3-3 Gabríel Aron Sævarsson ('119 )
Lestu um leikinn

Valur er komið áfram í undanúrslit Mjólkurbikars karla eftir að hafa unnið Keflavík eftir vítaspyrnukeppni á HS Orku vellinum í Keflavík í kvöld. Staðan var 3-3 eftir venjulegan leiktíma og framlengingu, en Valur vann vítakeppnina, 5-3.

Eins og við var að búast voru Valsarar töluvert meira með boltann í fyrri hálfleiknum.

Liðið skapaði sér mörg góð færi til að komast í forystu en Ásgeir Orri Magnússon, markvörður Keflvíkinga, var ekki á sama máli og varði allt sem kom í áttina að honum.

Hann átti góðar vörslur frá Jónatani Inga Jónssyni og síðar skalla frá Patrick Pedersen. Danski framherjinn átti síðan skalla í slá eftir hornspyrnu.

Það hlaut að koma að markinu en það fannst Keflvíkingum heldur umdeilt. Kristinn Freyr Sigurðsson átti sendingu út hægra megin á Birki Má Sævarsson, sem fann síðan Pedersen. Hann lagði boltann aftur á Birki sem kom honum á Guðmund Andra Tryggvason. Sá tíaði hann upp fyrir Pedersen sem setti boltann í netið.

Keflvíkingar kvörtuðu yfir mögulegri rangstöðu í aðdraganda marksins þegar Kristinn Freyr átti sendingu út hægra megin. Birkir var ekki rangstæður, en það leit út fyrir að Jónatan Ingi hafi náð að snerta boltann í leiðinni og þá var Birkir fyrir innan. Erfitt að dæma um það, en markið dæmt gott og gilt.

Heimamenn voru ekki lengi að svara fyrir sig. Boltinn kom inn í teig og voru Valsmenn í mestu vandræðum með að hreinsa boltann frá. Bjarni Mark Duffield reyndi að hreinsa með bakfallssyprnu en hitti ekki boltann sem datt fyrir Ásgeir Pál Magnússon sem setti hann í vinstra hornið.

Staðan í hálfleik 1-1 og gaf þetta Keflvíkingum mikinn styrk því þeir komu öflugir inn í síðari.

Þegar rúmar fimm mínútur voru liðnar kom Dagur Ingi Valsson liði Keflvíkinga yfir. Dagur fékk boltann við vítateigslínuna eftir aukaspyrnu Ara Steins Guðmundssonar. Skotvinkillinn var þröngur en hann náði að smella honum í netið. Eiginlega ómögulegt fyrir Frederik Schram að verja þetta, enda stóðu margir menn fyrir sjónlínunni.

25 mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma komu Valsarar boltanum í netið. Pedersen potaði honum þá inn af stuttu færi eftir að Ásgeir hafði varið skot Jónatans út í teiginn en markið dæmt af vegna rangstöðu á Jónatan. Tæpt var það.

Nokkrum mínútum síðar jöfnuðu Valsmenn. Kristinn Freyr fékk boltann vinstra megin í teignum, kom honum frá sér en fékk hann óvænt aftur áður en hann kom boltanum fyrir markið. Gunnlaugur Fannar Guðmundsson fleygði sér á boltann, en varð fyrir því óláni að koma honum í eigið net.

Á 82. mínútu gátu Valsarar gert sigurmarkið. Adam Ægir Pálsson og Tryggvi Hrafn Haraldsson voru komnir tveir á einn varnarmann Keflvíkinga. Adam Ægir sendi Tryggva í gegn, sem var kominn einn á móti marki, en hann ákvað að reyna finna Adam Ægi á fjærstöng í stað þess að skjóta sjálfur. Sendingin var ekki nægilega nákvæm og náðu heimamenn að koma hættunni frá.

Mörkin urðu ekki fleiri eftir venjulegan leiktíma og því framlengt.

Gylfi Þór Sigurðsson, sem kom inn af bekknum seint í síðari hálfleiknum, var nálægt því að koma Val í forystu þegar um þrjár mínútur voru liðnar af framlengingunni en skot hans fór rétt framhjá markinu.

Markið lá í loftinu og kom fyrir rest er Jónatan Ingi náði valdi á boltanum í teignum og skoraði með góðu skoti. Mamadou Diaw var nálægt því að jafna metin nokkrum mínútum síðar, en fór illa með frábært færi á fjærstönginni.

Á 119. mínútu jöfnuðu Keflvíkingar. Þar var að verki yngsti leikmaður vallarins, Gabríel Aron Sævarsson, en hann er fæddur 2006. Allir voru komnir fram hjá Keflavík, þar á meðal Ásgeir Orri, markvörður liðsins. Boltinn datt fyrir Gabríel sem átti laflaust skot, en Frederik missti boltann einhvern veginn í gegnum sig og í netið.

Stuttu síðar var flautað til loka framlengingar og vítaspyrnukeppni framundan.

Valur hafði þar 5-3 sigur. Valsmenn nýttu öll víti sín en Frederik Schram varði eitt víti frá Nacho Heras.

Valsmenn í undanúrslit eftir ótrúlega dramatík en Keflavík er úr leik.

Vítaspyrnukeppnin:
0-1 Tryggvi Hrafn Haraldsson
1-1 Kári Sigfússon
1-2 Jónatan Ingi Jónsson
1-2 Frederik Schram ver frá Nacho Heras
1-3 Gylfi Þór Sigurðsson
2-3 Dagur Ingi Valsson
2-4 Adam Ægir Pálsson
3-4 Ásgeir Páll Magnússon
3-5 Kristinn Freyr Sigurðsson
Athugasemdir
banner
banner