Chiesa í skiptum fyrir Greenwood? - David til Chelsea - Buðu Palace að fá Olise aftur á láni - Slot skoðar Minteh - Varane til Miami
   sun 09. júní 2024 16:16
Elvar Geir Magnússon
Rotterdam
„Það var nóg að gera í símanum eftir leik“
Icelandair
Jóhann Berg Guðmundsson eftir sigurinn á Wembley.
Jóhann Berg Guðmundsson eftir sigurinn á Wembley.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhann Berg Guðmundsson.
Jóhann Berg Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Skilaboðin sem Jóhann Berg Guðmundsson fékk send frá félaga sínum Bruno Fernandes, fyrirliða Manchester United, eftir sigurinn gegn Englandi vöktu athygli. Jóhann fékk fjölda skilaboða frá félögum sínum í enska boltanum eftir sigurinn á Wembley.

„Það var nóg að gera í símanum eftir leik. Það var verið að óska til hamingju með frábæra frammistöðu, fólk segir að við áttum skilið að vinna. Það er gaman að mæta á mitt annað heimili og vinna England og halda þessum 100% árangri á móti þeim. Það var nóg að gera í símanum eftir leik," sagði Jóhann Berg á fréttamannafundi í Rotterdam í dag.

Hann var spurður að því hvort hann hefði skipt um treyju við einhvern Englending eftir leik?

„Ég skipti við James Trafford sem er farinn úr hópnum. Hann spilaði með mér hjá Burnley. Svo skipti ég við Phil Foden líka. Það er ekki oft sem maður spilar gegn enska landsliðinu og gaman að fá treyjur í safnið."

„Englendingarnir voru ekkert að drífa sig út úr klefanum eftir leik. Southgate hefur verið að segja við þá nokkur orð," segir Jóhann sem veit ekki hvort hann ætli að fá hollenska treyju í safnið sitt á morgun.

„Ég ætla að sjá hvernig skapi ég er í eftir leik, ef ég tapa leikjum er ég ekki mikið að skipta um treyjur."

Við hvernig andstæðingum megum við búast á morgun þegar Ísland leikur gegn Hollandi í Rotterdam?

„Þetta verður kannski svipað (og gegn Englandi). Við eigum eftir að þurfa að verjast ansi mikið. Hollendingar elska að halda í boltann en við vitum að hægt er að nýta skyndisóknirnar og getum líka alveg haldið í boltann. Hvert einasta lið er með einhverja veikleika," segir Jóhann.
Athugasemdir
banner
banner
banner