Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 09. október 2020 12:42
Elvar Geir Magnússon
Enn stefnt að því að klára mótið - „Engin fullkomin lausn"
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir að allra leiða verði leitað til að klára Íslandsmótið.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir að allra leiða verði leitað til að klára Íslandsmótið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Framarar eru í baráttu um að komast upp í Pepsi Max-deildina.
Framarar eru í baráttu um að komast upp í Pepsi Max-deildina.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR er í baráttu um Evrópusæti.
KR er í baráttu um Evrópusæti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stefnan er að klára Íslandsmótið í fótbolta en mikil óvissa er í samfélaginu og Guðni Bergsson, formaður KSÍ, viðurkennir að málin séu ekki alfarið í höndum sambandsins heldur velti á faraldrinum.

„Ég held að flestir séu á því að sanngjarnasta og besta lausnin sé að klára mótið og við stefnum að því ennþá. Við erum samt líka að eiga við ástand sem við höfum ekki fyllilega stjórn á," segir Guðni við Fótbolta.net.

„Það eru ekki góðar tölur að birtast af smitum og við verðum bara að bíða átekta og vona að við náum sem fyrst tökum á þessu. Samhliða því getum við auðvitað farið að æfa og keppa í fótbolta."

„Það er lítið eftir af mótinu og sanngjarnasta lendingin yrði að klára mótið. Mótið er langt komið og við leitum allra leiða til að gera það."

Æfingum og keppni á höfuðborgarsvæðinu hefur verið frestað til 19. október en miðað við fjölda smita gæti það orðið lengur.

„Þessar takmarkanir setja strik í reikninginn og við erum að fara yfir mögulegar sviðsmyndir. Við erum að flýta okkur hægt en munum fljótlega tilkynna um hvernig við sjáum framhaldið. Við munum ræða við félögin um það," segir Guðni.

Meðan lið á höfuðborgarsvæðinu mega ekki æfa þá mega lið utan þess halda æfingum áfram og gefur það forskot hjá sumum liðum í mikilvægri baráttu.

„Það setur auka flækjustig í þetta og er eitthvað sem við þurfum að taka inn í ákvarðanatökuna. Við munum gera það."

Tökum ákvörðunina og ábyrgðina á endanum
Fyrr á árinu var sett saman reglugerð hjá KSÍ sem fjallaði um það ef ekki væri hægt að klára mótið vegna Covid-ástandsins myndu úrslit ráðast á meðalfjölda stiga. Hvað þarf að gerast svo sú reglugerð verði gerð virk?

„Ég vil ekki ræða það á þessu stigi, við eigum eftir að fara yfir þetta betur og svo með félögunum. Ég vil ekki tjá mig um þetta núna," segir Guðni.

Sjá einnig:
Svona endar Íslandsmótið ef keppni verður hætt

„Það verður reynt að finna bestu lausnina en miðað við ástandið verður það eflaust ekki fullkomin lausn. Við reynum að gera þetta í samvinnu við aðildarfélögin en það eru margar skoðanir í stórri hreyfingu, við verðum að taka ábyrgðina og ákvörðunina á endanum. Við munum gera það."

Erlendir leikmenn á heimleið
Mörg félög sem eru að sigla lygnan sjó hafa ákveðið að losa um kostnað og senda erlenda leikmenn heim. Það er því ljóst að einhver félög verða mjög breytt ef áætlun um að klára mótið tekst upp.

„Við höfum oft verið í þeirri stöðu þegar haustar að þegar línur fara að skýrast fari erlendir leikmenn heim og leikmenn til náms. Það er meira um þetta núna þegar liðið er á veturinn og við erum meðvituð um það. Það breytir því ekki að við teljum að sanngjarnasta lausnin sé að ná að klára mótið," segir Guðni.

„Við gerum okkar sem einstaklingar að gæta vel að sóttvörnum. Það er okkur mjög mikilvægt að ná árangri í þessari baráttu. Við hugum bara vel hvort að öðru, nú er það heilsa og velferð þjóðarinnar sem er að veði."
Athugasemdir
banner
banner
banner