Jan Kirchoff, fyrrum varnarmaður Bayern München sem leikur núna með KFC Uerdingen 05, er mjög hrifinn af því að sitt gamla félag hafi nælt í sóknarmanninn Eric Choupo-Moting.
Choupo-Moting skrifaði undir tveggja ára samning við Bayern á gluggadeginum. Þar mun þessi 31 árs gamli sóknarmaður vera varaskeifa fyrir besta leikmann heims, Robert Lewandowski.
Eftir að Choupo-Moting féll úr ensku úrvalsdeildinni með Stoke City 2018 var hann fenginn til Frakklandsmeistara Paris Saint-Germain. Þar skoraði hann 9 mörk í 51 leik en samningur hans þar var að renna út.
Núna er hann kominn til Bayern og er Kirchoff mjög ánægður að sjá það. Hann er mjög hrifinn af Kamerúnanum sem leikmanni, en þeir spiluðu saman hjá Schalke.
„Ég er ekki að ýkja neitt, það er í raun bilað hversu góður Choupo er í raun og veru. Hann er með allt - hann er fljótur, skilur leikinn vel, tekur góð hlaup, hann er tæknilega sterkur og er góður á boltanum," sagði Kirchoff við Goal í Þýskalandi.
„Það eina sem aðskilur hann og leikmenn eins og Lewandowski og Zlatan, er stöðugleiki hans í að klára færi. Það vantar kannski sama egó hjá honum og Lewandowski er með."
Athugasemdir