mán 10. janúar 2022 07:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Getum líkt þessu við Evrópumótið eins og það var síðasta sumar"
Icelandair
Það verður mikið um ferðalög í júní og mikið álag á landsliðinu og starfsfólkinu í kring.
Það verður mikið um ferðalög í júní og mikið álag á landsliðinu og starfsfólkinu í kring.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eina sem landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson vonaðist eftir í júní var að þurfa ekki að ferðast til og frá Íslandi oftar en einu sinni á meðan verkefni landsliðsins í Þjóðadeildinni stæði.

Arnari varð ekki að ósk sinni því Ísland byrjar gegn Ísrael í fyrsta leik, kemur svo til Íslands og mætir Albaníu, fer svo til Rússlands og kemur svo aftur heim og mætir Ísrael. Fyrsti leikur er 2. júní og sá síðasti 13. júní, þokkalegt álag.

Lestu um málið:
Landsliðið stekkur til og frá Íslandi í júní við litla hrifningu Arnars

Eftir að landsliðshópurinn fyrir komandi vináttuleiki (gegn Úganda og Suður-Kóreu) var tilkynntur var Arnar spurður út í júnígluggann og ferðalögin öll.

Þú talaðir um á blaðamannafundi í desember að þetta væri akkúrat það sem þú vildir ekki. Hvernig líst þér á þetta?

„Ég get ekki breytt því hvernig þessu var raðað. Við vissum hvaða möguleikar voru í stöðunni og ég sagði einmitt eftir dráttinn að við vonuðumst til þess að vera svolítið heppnir með það hvernig þessu yrði raðað niður. Það var ekki og við fengum eins löng ferðalög og hægt er," sagði Arnar í síðustu viku.

„Núna erum við á fullu að skipuleggja, ekki bara janúarverkefnið, ekki bara marsverkefnið heldur strax byrjaðir að skipuleggja júnígluggann. Við getum líkt þessu við Evrópumótið - lokakeppnina eins og hún var síðasta sumar. Liðin voru að ferðast mjög mikið á milli leikja. Þar voru lið sem þurftu að ferðast mikið og önnur sem þurftu að ferðast lítið eða ekki neitt. Það var mikið rætt, t.d. um Englendingana, þeir þurftu ekki að ferðast neitt."

„Þetta er bara eitthvað sem við verðum að takast á við. Þetta tengist hlutum sem við höfum verið að tala um, verðum að skipuleggja okkur betur sem samband og verðum að skipuleggja okkur betur sem starfslið til þess að ráða við þetta. Allar greiningar fyrir leiki á andstæðingum og eftir okkar eigin leiki, þetta eru fjórir leikir - þetta er eins og lokamót, riðlakeppni og einn leikur í viðbót,"
sagði Arnar.

Annað tengt valinu á hópnum:
Janúarhópur Íslands - Tíu sem hafa ekki spilað landsleik
Arnar flýtir sér hægt í leit að aðstoðarmanni
Nokkur félög hleyptu ekki mönnum í verkefnið
Böddi og DKÓ komu til greina - Gott fyrir Davíð Snorra
Leitar í reynslu Damirs - „Fundist hann vera að yngjast með árunum"
„Um leið og ég byrja lofa því þá gæti ég verið að ljúga að einhverjum"
Athugasemdir
banner
banner