Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 10. janúar 2023 12:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Margrét komin með leikheimild hjá Parma - Alvöru Íslendingadeild
Margrét ´Árnadóttir
Margrét ´Árnadóttir
Mynd: Parma
Margrét Árnadóttir er gengin í raðir Parma, fjallað var um skiptin á sunnudag en Margrét fékk leikheimild með liðinu í gær og getur því spilað með liðinu um næstu helgi.

Parma fær hana frá Þór/KA þar sem hún hefur spilað frá því hún kom upp úr yngri flokka starfinu hjá KA. Hún verður 24 ára í apríl og er leikmaður sem getur spilað framarlega á miðjunni sem og í fremstu víglínu.

Í tilkynningu Parma í gær kemur fram að hún mun spila í treyju númer nítján. Fyrsti leikur hennar fyrir Parma gæti verið gegn AC Milan á laugardag. Parma er í botnsæti deildarinnar, fjórum stigum frá Pomigliano sem er í næstneðsta sæti.

Leiknar eru átján umferðir í hefðbundinni deildarkeppni og svo er deildinni tvískipt þar sem efstu fimm liðin keppast um hvaða lið verður meistari og neðri fimm keppast um að halda sæti sínu í deildinni.

Sjá einnig:
„Mikill spenningur en líka stress"

Nú eru fimm Íslendingar að spila í deildinni, helmingur liðanna í deildinni er með íslenskan leikmann innanborðs. Hjá AC Milan er Guðný Árnadóttir, hjá Fiorentina er Alexandra Jóhannsdóttir, hjá Inter er Anna Björk Kristjánsdóttir og hjá Juventus er Sara Björk Gunnarsdóttir.

Margrét spilaði sautján leiki með Þór/KA í Bestu deildinni síðasta sumar þar sem hún skoraði sex mörk er liðið hafnaði í sjöunda sæti deildarinnar. Hún á alls að baki 99 leiki í deild og bikar fyrir Þór/KA og hefur í þeim skorað 22 mörk.
Athugasemdir
banner