Magnús Már Einarsson þjálfari Aftureldingar var svekktur eftir 4-1 tap liðsins gegn Stjörnunni í Lengjubikarnum í kvöld.
„Við gerðum okkur mjög erfitt fyrir með því að vera 2-0 undir eftir 5 mínútna leik, fengum á okkur ódýr mörk og grófum mjög djúpa holu sem var erfitt að komast upp úr," sagði Magnús.
Hann gat þó séð eitthvað jákvætt út úr þessum leik.
„Það voru allt í lagi kaflar inn á milli, markið okkar gott en Stjarnan er mjög gott lið og þeir verðskulduðu sigurinn klárlega. Kaflarnir sem við þorðum að spila eins og í markinu. Það voru nokkrir þannig kaflar og gerðum það vel. Heilt yfir vantaði meiri grimmd og meiri áræðni sérstaklega í byrjun til að 'matcha' þá," sagði Magnús.
Afturelding hafnaði í 8. sæti í Lengjudeildinni á síðustu leiktíð en Magnús telur að liðið sé sterkara en undanfarin ár.
„Hún er mjög góð, betri en á sama tíma undanfarin ár. Að mínu mati erum við með sterkari og stærri hóp, strákarnir eru búnir að bæta sig mikið undanfarin ár og við erum búnir að fá öfluga leikmenn til okkar í vetur þannig þetta lítur vel út," sagði Magnús.