
Álfhildur Rósa Kjartansdóttir, fyrirliði Þróttar R., var ánægð með liðsheildina í markalausa jafnteflinu gegn Val í 2. umferð Pepsi Max-deildarinnar í kvöld en Þróttarar eru með tvö stig úr fyrstu tveimur umferðunum.
Lestu um leikinn: Þróttur R. 0 - 0 Valur
Valur hefur verið eitt besta lið landsins síðustu ár og síðast þegar þessi lið mættust í Lengjubikarnum þá vann Valur með átta mörkum gegn engu en það var hins vegar breyting á í dag.
Þær voru skipulagðar í varnarleiknum og áttu sín færi en Álfhildur var mjög ánægð með úrslitin.
„Mér fannst við standa ótrúlega vel í þessu sterka liði og við getum ekki verið annað en sáttar með jafntefli," sagði Álfhildur við Fótbolta.net.
„Uppleggið var að reyna að halda góðum varnarleik. Við vitum að þær pressa mikið og reyna að koma boltanum hratt út þegar við erum með hann og sýna hvað við getum."
„Mér fannst við ná að gera þetta mjög vel og vinna vel saman sem lið. Það sást í leiknum og gera þetta á hörkunni."
„Ég held að aðeins að tengjast betur og vinna betur saman sem lið, þetta er allt að klikka."
Þróttur náði í fjóra erlenda leikmenn fyrir tímabilið og þær hafa verið að stimpla sig vel inn í liðið.
„Þær eru að standa sig gríðarlega vel og verða betri með hverri æfingunni og hverjum leik. Við erum mjög sáttar með þær."
Það hefur verið mikið af óvæntum úrslitum í fyrstu tveimur umferðunum til þessa og gæti deildin verið jafnari þetta árið en hefur verið síðustu ár.
„Ég held að þetta verði ótrúlega spennandi deild og jafnari en hefur verið áður og það er auðvitað ótrúlega skemmtilegt. Markmiðið er að gera betur en í fyrra og halda okkur uppi," sagði hún svo í lokin.
Athugasemdir