Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 10. ágúst 2015 15:45
Magnús Már Einarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Hver græðir á þessu?
Magnús Már Einarsson
Magnús Már Einarsson
Úr leik Hauka og ÍR/BÍ/Bolungarvíkur í 1. deild kvenna.  Myndin tengist pistlinum ekki beint.
Úr leik Hauka og ÍR/BÍ/Bolungarvíkur í 1. deild kvenna. Myndin tengist pistlinum ekki beint.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Augnablik er varalið Breiðabliks.  Liðið hefur spilað í 1. deildinni í sumar.
Augnablik er varalið Breiðabliks. Liðið hefur spilað í 1. deildinni í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Úr leik Fram og FH í 1. deildinni í sumar.
Úr leik Fram og FH í 1. deildinni í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Síðastliðinn laugardag sigraði Grindavík lið Hvíta Riddarans 21-0 í 1. deild kvenna. Leikurinn var ójafn frá fyrstu mínútu en staðan var 12-0 í hálfleik. Ég leyfi mér að efast um að leikmenn liðanna hafi haft mjög gaman af þessari ójöfnu viðureign. Hver græðir á svona leik?

Metnaður félaganna eru einnig gífurlega ólíkur. Grindavík hefur ekki tapað leik í sumar og stefnir á að komast á ný upp í Pepsi-deild kvenna eftir nokkurra ára dvöl í 1. deild. Liðið er með þrjá erlenda leikmenn og marga leikmenn sem hafa reynslu af því að spila í Pepsi-deildinni. Á hinn bóginn er Hvíti Riddarinn að tefla fram liði í meistaraflokki kvenna í fyrsta skipti og langflestir leikmenn liðsins eru að byrja aftur í fótbolta eftir mjög langt hlé.

Af hverju eru þessi félög að mætast í deildarkeppni þegar munurinn á þeim er svona gífurlegur? Ástæðan er sú að einungis eru tvær deildir í meistaraflokki kvenna. Pepsi-deild kvenna og 1. deild kvenna sem er þar með bæði næstefsta og neðsta deild í kvennaflokki. Það er gjörsamlega galið!

Eftir mikinn uppgang í kvennafótbolta á Íslandi undanfarin ár, sem hefur skilað sér í fleiri iðkendum og fleiri meistaraflokksliðum, þá er löngu kominn tími á að búa til 2. deild kvenna.

Fleiri félög vilja taka þátt
20 lið taka þátt í 1. deild kvenna í sumar og getumunurinn er ekki bara mikill á Grindavík og Hvíta Riddaranum heldur á mörgum öðrum liðum í deildinni. Sex sinnum í sumar hafa lið farið í tveggja stafa tölu gegn andstæðingum sínum og slíkir leikir hjálpa engum. Í kringum úrslit helgarinnar var mikil umræða á Twitter um að fjölga eigi deildum í meistaraflokki kvenna. Þar kom fram að félög eins og Beserkir og KV hafi sýnt því áhuga að tefla fram kvennaliðum en að þau hafi hætt við af ótta við að fá útreið eins og Hvíti Riddarinn fékk um helgina.

Ef konur vilja spila fótbolta í meistaraflokki er einungis í boði að spila í efstu eða næstefstu deild á meðan fimm deildir eru í karlaflokki sem og utandeildir. Margar konur hætta því eftir yngri flokkana, eða hætta við að draga fram skóna og spila fótbolta á nýjan leik, þar sem að vettvangurinn er ekki til staðar. Þetta þarf að laga.

Margir kostir við fjölgun
Það að fjölga deildum hefur marga fleiri kosti. Leikjum á eftir að fjölga mikið en flest lið í 1. deildinni spila einungis tíu til tólf leiki í sumar sem er skammarlega lítið. Einnig er hægt að sleppa umspili um sæti í Pepsi-deildinni en það hefur leikið mörg lið grátt undanfarin ár. Lið hafa jafnvel tapað einum leik allt sumarið en ekki komist upp. Ef ný 2. deild myndi líta dagsins ljós væri hægt að hafa tíu liða 1. deild þar sem að allt er undir frá fyrsta leik og tvö efstu liðin fara upp og tvö neðstu niður.

Með fjölgun deilda gætu fleiri félög séð hag í að tefla fram „varaliðum" í neðri deildunum eins og þekkist í meistaraflokki karla. Breiðablik hefur gert þetta með liði Augnabliks í 1. deild kvenna í sumar en þar fá ungir leikmenn eldskírn sína í meistaraflokki og leikmenn sem komast ekki að hjá Breiðabliki geta áfram spilað hjá sínu félagi. Í karlaflokki eru meira að segja dæmi um leikmenn í íslenska landsiðinu sem hafa stigið sín fyrstu skref í meistaraflokki með slíkum varaliðum.

Breytið þessu á ársþinginu
Ekki er hægt að benda bara á KSÍ því að félögin sjálf eru með valdið í þessu máli. Þau þurfa að leggja fram tillögu á næsta ársþingi og samþykkja hana. Á ársþinginu 2013 kom fram tillaga um að fjölga félögum í Pepsi-deild kvenna og sem hluti af þeirri tillögu var möguleiki á að fjöga deildum. Tillagan var felld og því fór málið ekki lengra. Nú þurfa félög að leggja fram tillögu sem snýr eingöngu að fjölgun deilda. Því fyrr sem það verður gert, því betra. Liðum og iðkendum mun fjölga, leikmenn fá miklu fleiri leiki og viðureignir liða verða jafnari og skemmtilegri.
Athugasemdir
banner
banner