Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fös 10. september 2021 13:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Magnús hættur hjá Gróttu - Dagurinn í gær sá versti
Magnús Örn Helgason
Magnús Örn Helgason
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Magnús Örn Helgason tilkynnti í gær með færslu á facebook að hann væri hættur sem þjálfari Gróttu.

Tilkynningin kemur í kjölfarið á því að Grótta féll úr Lengjudeildinni í gærkvöldi eftir dramatíska lokaumferð. Niðurstaðan var sú að Grótta féll á markatölu eftir að hafa verið 20 mínútur af tímabilinu í fallsæti.

Færsluna má sjá í heild hér að neðan. Magnús er 32 ára gamall og var í ágúst ráðinn þjálfari U17 ára landsliðs kvenna. Neðst í fréttinni má sjá viðtal við Magnús eftir leikinn gegn KR í gær.

„Kæra Gróttufólk - Maggi hér.
Langaði bara að nota þennan vettvang til að þakka ykkur öllum kærlega fyrir samfylgdina síðustu 14 árin. Samstarfsfólki, sjálfboðaliðum, stuðningsfólki og ekki síst öllum sem ég hef þjálfað. Sömuleiðis vil ég nota tækifærið og fara yfir niðurstöðuna hjá meistaraflokki kvenna."

„Minn síðasti dagur hjá Gróttu var í dag. Dagurinn var jafnframt sá versti af þeim öllum en eins og þið líklega vitið þá féll meistaraflokkur kvenna niður í 2. deild á sínu öðru tímabili í Lengjudeildinni"

„Ég trúi því varla ennþá að þetta sé niðurstaðan en stigataflan lýgur ekki. Grótta var í fallsæti í 20 mínútur og fellur á markatölu. Ég sem þjálfari liðsins tek ábyrgð á þessu slæma gengi og get fátt annað gert en biðja stuðningsmenn félagsins afsökunar. Lengjudeildin var sterk í ár en Gróttuliðið hafði möguleika á mikið betra gengi en raunin varð. Þetta er því niðurstaða sem svíður og mun gera það eitthvað áfram."

„Það er ekki hægt að skrifa athugasemd við þennan póst því ég þarf ekki að heyra fólk segja hversu gott starf ég hef unnið fyrir félagið. Ég veit vel að ég hef lagt helling að mörkum, en á þessari stundu er það aukaatriði. Það sem skiptir máli núna er að Grótta og bakland félagsins haldi áfram að leggja metnað og alúð í kvennaboltann og láti þetta bakslag ekki hafa skaðleg áhrif. Það þarf að halda áfram að fjölga stelpum í fótbolta, ráða drífandi og metnaðarfulla þjálfara til starfa, hafa starfið í meistaraflokki faglegt og gera eins vel við leikmenn eins og kostur er. Í mörgum félögum fara mannskapur og peningar í eitthvað allt annað en kvennafótbolta, en ég vona innilega að Grótta haldi áfram að gera vel.
Ég byrjaði sem aðstoðarþjálfari í 5. flokki karla haustið 2007 og hef starfað fyrir félagið síðan þá með nokkrum stuttum hléum. Mér hefur verið treyst fyrir fjölmörgum mikilvægum störfum og unnið með frábæru fólki sem hefur kennt mér margt. Ég kveð því Gróttu með dýrmæta reynslu í farteskinu en ósáttur við lokakafla sögunnar."

„Meðfylgjandi mynd segir kannski meira en flest orð. Ég er miður mín en óendanlega þakklátur fyrir tækifærin, vinskapinn og reynsluna sem Grótta hefur gefið mér."



Magnús Örn: Eins og vondur draumur sem varð að veruleika
Athugasemdir
banner
banner
banner