Real gæti gert janúartilboð í Trent - O'Neil verður ekki rekinn - Liverpool vill Eze
banner
   þri 10. september 2024 09:04
Elvar Geir Magnússon
Bellamy: Jakkinn minn er ónýtur
Bellamy á hliðarlínunni í gær.
Bellamy á hliðarlínunni í gær.
Mynd: Getty Images
Það rigndi stanslaust meðan á leik stóð.
Það rigndi stanslaust meðan á leik stóð.
Mynd: Getty Images
Wales vann 2-1 útisigur gegn Svartfjallalandi í Þjóðadeildarriðli Íslands í gær. Craig Bellamy, landsliðsþjálfari Wales, segist stoltur af sínu liði að hafa landað sigri við 'óboðlegar aðstæður'.

Þar sem þjóðarleikvangur Svartfellinga var dæmdur óleikhæfur var leikurinn færður til borgarinnar Niksic. Þar voru aðstæður heldur betur erfiðar, gríðarleg úrkoma gerði það að verkum að leikmenn áttu erfitt með að standa í lappirnar, hvað þá spila fótbolta.

Wales komst tveimur mörkum yfir eftir aðeins þriggja mínútna leik; Kieffer Moore og Harry Wilson með mörkin. Þau mörk dugðu til sigurs þó Svartfellingar næðu að minnka muninn. Wales er með fjögur stig eftir tvær umferðir.

Þetta var ekki fótboltaleikur
„Ég er gríðarlega stoltur af liðinu. Mér þykir svo vænt um þennan hóp. Þetta eru erfiðustu aðstæður sem ég hef verið í. Ekkert við þennan leik og ferðalagið var auðvelt. Það hefði verið hægt að nota svo margar afsakanir. Breytingin á leikstaðnum, ferðalagið, rútubílstjóri sem var ekkert að drífa sig, aðstæðurnar. En við lærum af þessu," segir Bellamy.

„Þetta var ekki fótboltaleikur. Aðstæðurnar gerðu það að verkum að það var ómögulegt að spila fótbolta. Ég gat ekki einu sinni verið í strigaskóm og jakkinn minn er ónýtur! Völlurinn var orðinn óleikhæfur eftir fimm mínútur og þá snérist þetta bara um hvort liðið gæti unnið bardagann."

Bellamy byrjar vel og er gríðarlega vinsæll
Bellamy lék 78 landsleiki fyrir Wales á sínum tíma og var ráðinn landsliðsþjálfari í sumar. Bellamy starfaði síðast sem aðstoðarmaður Vincent Kompany hjá Burnley. Sem leikmaður lék hann meðal annars fyrir Liverpool, Newcastle og Manchester City.

Hann fer vel af stað í starfi og leikmenn velska liðsins hafa verið að hlaða hann lofi í viðtölum. Þá sungu stuðningsmenn nafn hans í gegnum allan leikinn í Svartfjallalandi í gær.

Wales heimsækir Ísland og leikur á Laugardalsvellinum í októberglugganum.
Athugasemdir
banner
banner