Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 10. október 2019 18:00
Magnús Már Einarsson
Deschamps: Ísland er hættulegt lið
Icelandair
Didier Deschamps.
Didier Deschamps.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Didier Deschamps, landsliðsþjálfari heimsmeistara Frakka, segist búast við allt öðruvísi leik gegn Íslandi á Laugardalsvelli annað kvöld heldur en í 4-0 sigri í leik liðanna í París í mars síðastliðnum.

„Íslendingar hafa sýnt að þeir eru betri á heimavelli og aðstæðurnar eru öðruvísi. Ég býst við líkamlega erfiðum leik," sagði Deschamps á fréttamannafundi í Laugardalsvelli síðdegis í dag.

„Ísland spilar mjög beinskeyttan fótbolta og er með hættulegt lið í föstum leikatriðum, til dæmis í löngum innköstum. Þeir eiga margar hættulegar útfærslur í innköstum. Ísland er hættulegt lið, sérstaklega á heimavelli."

Hugo Lloris, Paul Pogba og Kylian Mbappe eru allir fjarverandi vegna meiðsla og Deschamps var spurður að því hvort hann geti tryggt það að franska liðið sé tilbúið í mikla baráttu gegn Íslandi á morgun. „Það er aldrei hægt að tryggja það. Prófið er á morgun. Ég hef hins vegar ekki áhyggjur. Liðið þarf að sýna hvað í því býr," sagði Deschamps.

Kylian Mbappe, leikmaður PSG, varð að draga sig úr franska landsliðshópnum í vikunni. Mbappe hefur verið meiddur undanfarið og eftir skoðun á æfingasvæði franska landsliðsins var ákveðið að hann kæmi ekki með til Íslands.

„Við mátum það þannig að hann væri ekki tilbúinn og þyrfti aðeins meiri tíma til að ná sér. Mbappe vildi mæta til að eiga möguleika á að koma með í ferðina en það var því miður ekki mögulegt," sagði Deschamps.
Athugasemdir
banner
banner