Bukayo Saka, lykilmaður í Arsenal og enska landsliðinu, fór meiddur af velli í kvöld í 2-1 tapi Englands gegn Grikklandi á Wembley.
Vængmaðurinn, sem hefur verið einn besti leikmaður Arsenal síðustu ár, þurfti að fara af velli á 51. mínútu leiksins vegna meiðsla aftan í læri.
Noni Madueke kom inn fyrir Saka en ekki er vitað hvort meiðslin séu af alvarlegum toga.
„Það er verið að athuga með hann. Þú sást í aðdraganda fyrsta marksins að hann hafi fundið fyrir einhverju í fætinum,“ sagði Lee Carsley, þjálfari enska landsliðsins.
Arsenal-menn halda í vonina um að þetta sé eitthvað smávægilegt en liðið er þegar án fyrirliðans, Martin Ödegaard, sem meiddist á ökkla í leik með norska landsliðinu í síðasta mánuði.
Næsti leikur Arsenal er gegn Bournemouth á Vitality-leikvanginum þann 19. október.
Athugasemdir